Besti erlendi leikmaður síðasta tímabils í íslensku úrvalsdeildinni og besti maður úrslitakeppninnar, J´Nathan Bullock, er á leið til Finnlands og mun leika þar við hlið Giordan Watson en báðir áttu þeir stóran þátt í Íslandsmeistaratitli Grindavíkurliðsins síðastliðið vor.
Þetta kemur fram á vefmiðlinum karfan.is. Watson hafði einmitt vonast til þess að lífvörðurinn sinn, Bullock, myndi fylgja með og honum varð að ósk sinni.
Þá eiga Finnarnir í Karhu bara eftir að landa Ryan Pettinella til að fullkomna þrennuna. J´Nathan Bullock þarf vart að kynna fyrir áhugafóki um íslenskan körfuknattleik en kappinn lét vel fyrir sér finna á síðustu leiktíð með 21,4 stig að meðaltali í leik, 9,6 fráköst og 22,0 að jafnaði í framlag.
Það er því ljóst að Íslandsmeistarar Grindavíkur þurfa að leggja netin á ný og sjá hvað kemur að landi en ljóst er að skörð Bullock og Watson verða vandfyllt hjá meistaraliðinu.