Grindavík er úr leik í bikarkeppninni eftir 5 stiga tap gegn bikarmeisturum KR í íþróttahúsi KR í kvöld. Þar með tókst KR að stöðva sigurgöngu Grindavíkurliðsins sem verður nú að einbeita sér að fullum krafti að deildarkeppninni í staðinn þar sem liðið trónir á toppnum.
Liðin mættist í úrslitaleik bikarkeppninnar í fyrra og þar hafði KR betur og tókst því að endurtaka leikinn í ár. Páll Axel Vilbergsson var ekki með Grindavík í kvöld vegna meiðsla og var hans sárt saknað. KR spilaði svæðisvörn sem Grindvíkingar áttu ekkert svar við.
„Þetta eru mikil vonbrigði fyrir okkur þar sem liðið ætlaði sér alla leið í þessari keppni,” sagði Helgi Jónas Guðfinnsson, þjálfari Grindvíkinga, eftir tapið í kvöld við Vísi.
„Við vorum bara ekki nægilega klókir í sókninni undir lok leiksins og sættum okkur bara við léleg skot og í raun tókum við allt of mörg þriggja stiga skot í þessum leik. KR-ingar komu mér þannig lagað ekkert á óvart en maður fann einhverja stemmningu með liðinu í kvöld. Við þurfum bara að nota þennan leik til að komast aftur á beinu brautina og einbeita okkur að deildinni, það eru enn tveir titlar í boði og við ætlum okkur að hirða þá báða”.
Grindavík: J’Nathan Bullock 18/11 fráköst/5 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 14/7 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 12, Giordan Watson 11/5 fráköst/7 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 9, Ómar Örn Sævarsson 5/6 fráköst, Þorleifur Ólafsson 5, Björn Steinar Brynjólfsson 2.