Breiddin er mikil

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Stjarnan og Grindavík hafa unnið þrjá fyrstu leiki sína í Iceland Express-deild karla og líta bæði vel út í upphafi mótsins. Það er einkum breiddin í stigaskori leikmanna beggja liða sem hefur vakið athygli. Sex Grindvíkingar hafa skorað tíu stig eða meira að meðaltali í þessum þremur umferðum og fimm Stjörnumenn eru að skora 13 stig eða meira í leik.

Það kemur því kannski ekki á óvart að bæði liðin hafa unnið þrjá fyrstu leiki sína örugglega. Fyrsta alvöru prófið á Stjörnumenn er reyndar í kvöld þegar þeir fá Íslandsmeistara KR-inga í heimsókn. Fram að þessu hefur liðið mætt Tindastóli, Haukum og Val, sem eiga það öll sameiginlegt að sitja án sigurs á botni deildarinnar.

Stjarnan tekur á móti KR í Garðabænum klukkan 19.15 í uppgjöri liðanna sem léku til úrslita í fyrra en á sama tíma mætast Njarðvík og Þór Þorlákshöfn í Ljónagryfjunni í Njarðvík og ÍR og Snæfell í Seljaskóla.

Grindvíkingar spila sinn fjórða leik á morgun á móti Tindastóli á heimavelli en það eru ekki bara sex Grindvíkingar hafa skorað tíu stig eða meira í leik því tveir öflugir sóknarmenn til viðbótar eru rétt undir tíu stiga múrnum. Þetta eru Jóhann Árni Ólafsson (9,0) og Ólafur Ólafsson (8,7) sem eru báðir með yfir tíu framlagsstig í leik.

Helgi Jónas Guðfinnsson er því með átta leikmenn innanborðs sem eru að skora 8,7 stig eða meira, sem er lúxus sem fáir þjálfarar búa yfir. Stigahæsti maður Grindavíkurliðsins er Giordan Watson með „bara” 14,3 stig og það er því ekki hægt að einblína á neinn einn leikmann þegar menn ætla að stoppa Grindvíkinga í vetur. 
Menn skera sig meira út í Stjörnuliðinu.

Stjörnumaðurinn Justin Shouse hefur staðið sig afar vel í fyrstu þremur leikjunum sem Íslendingur, en hann er efstur í Stjörnuliðinu í stigum (21,3), stoðsendingum (6,3) og framlagi (24,7), auk þess sem Stjörnuliðið hefur unnið þá 101 mínútu sem hann hefur spilað til þessa með 66 stigum. Justin er líka efstur í plús og mínus í deildinni rétt á undan Keith Cothran, félaga sínum í Garðabænum.

Frétt: Vísir.is