Bikarsigur í bragðdaufum nágrannaslag

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Knattspyrna

Grindvíkingar tóku á móti nágrönnum sínum í Þrótti úr Vogum í sögulegum bikarleik en þessi lið hafa aldrei áður mæst í leik á Íslandsmóti né í bikarkeppni. Þróttarar sem leika í 4. deild mættu afar vel skipulagðir til leiks og spiluðu mjög þéttan varnarleik sem Grindavíkurliðið átti mjög erfitt með að leysa. Afar fá afgerandi færi litu dagsins ljós þrátt fyrir að Grindvíkingar væru með boltann í fótunum sennilega um 90% af leiknum.

Stífur vindur úr norði hafði sín áhrif á leikinn. Þrótturum gekk illa að spila upp í vindinn í fyrri hálfleik en Grindvíkingar eru mögulega vanari vindinum og tókst að skora upp í hann rétt undir lok leiksins þegar Óli Baldur Bjarnason náði frákasti í teignum og skoraði. Fram að því enduðu flestar sóknir Grindvíkinga í skotum himinhátt yfir markið eða með rangstöðu Tomislav Misura.

Raunar voru það Grindvíkingar sem leiddu varnarleik Vogamanna, en í miðverði þeirra var Grindvíkingurinn Sveinn Þór Steingrímsson og í bakverði Emil Daði Símonarson. Á miðjunni var svo Grindvíkingurinn Páll Guðmundsson sem er fyrirliði Vogamanna. Tveir Grindvíkingar enn komu við sögu þegar Einar Helgi Helgason og goðsögnin Vilmundur Jónasson komu inná sem varamenn. Á bekknum sátu svo Grindvíkingarnir Þorfinnur Gunnlaugsson og Davíð Arthur Friðriksson. Þjálfari Þróttara á einnig töluverð tengsl við Grindavík en hann var leikmaður Grindavíkur til margra ára, Andri Steinn Birgisson.

En sigur er sigur og Grindavík því komið áfram í 32-liða úrslit bikarsins. Það mætti sennilega grípa ýmsar klisjur á lofti eins og “seiglusigur” eða að “vorbragur” hafi verið á leiknum en við tökum úr þessu sigurinn og að markastíflan er brostin. Fram undan er bara líf og fjör!