Sameiginlegt lið Grindavíkur og Þórs Þorlákshafnar varð bikarmeistari í 11. flokki drengja en úrslitaleikir yngri flokkanna fóru fram í Röstinni um helgina í glæsilegri umgjörð.
Grindavík/Þór mætti Breiðablik í úrslitaleik þar sem Grindavík/Þór hafði betur 96-85 í hörku leik. Hilmir Kristjánsson var svo valinn maður leiksins með 31 stig og 16 fráköst. Glæsilegur árangur hjá þessum efnilegu piltum.
Unglingaráð körfuknattleiksdeildar UMFG sá um bikarúrslitaleikjahelgina og var hún hin glæsilegasta í alla staði. Aðsókn var góð og leikirnir spennandi og skemmtilegir.