Bikardraumurinn úti

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Bikardraumum Grindavíkur er lokið þetta körfuknattleiksárið en strákarnir töpuðu gegn Njarðvík í gær og því bæði meistaraflokksliðin okkar úr leik. Leikurinn var jafn og spennandi og okkar menn að spila vel í fyrri hálfleik. Í þriðja leikhluta hættu skotin að detta og Njarðvíkingar fundu sína fjöl. Grindvíkingar voru þó allan tímann inni í leiknum en voru mislagðar hendur í næstsíðustu sókn leiksins í stöðunni 77-75 og því fór sem fór. 

Karfan.is var með sérsveitina á staðnum sem gerði leiknum góð skil:

Njarðvíkingar eru komnir í 8-liða úrslit Maltbikarsins eftir 79-75 spennusigur á Grindavík í Ljónagryfjunni í kvöld. Rashad Whack jafnaði leikinn 75-75 fyrir Grindavík þegar rétt rúm mínúta lifði leiks en þá voru gestirnir á 7-0 áhlaupi til að jafna metin. Heimamenn í Njarðvík reyndust þó sterkari á lokasprettinum, vó þar þungt varið skot frá miðherjanum Ragnari Nathanaelssyni og lokatölur 79-75 eins og áður greinir. Þetta var þriðji háspennuleikurinn í röð í Ljónagryfjunni, kvennalið Njarðvíkur komst áfram í bikarnum í gær með sigri á Stjörnunni og í Domino´s-deild karla vann Njarðvík nauman sigur á Val í síðustu umferð.

Terrell Vinson var stigahæstur Njarðvíkinga í kvöld með 25 stig og 8 fráköst og Ragnar Nathanaelsson bætti við tvennu með 11 stig og 10 fráköst. Þá átti Logi Gunnarsson nokkrar „Logakörfur” þegar allt var í járnum en hann var með 16 stig í kvöld og Maciej Baginski bætti við 17 stigum.

Hjá Grindavík var Ólafur Ólafsson öflugur með 21 stig og 10 fráköst og Dagur Kár Jónsson bætti við 17 stigum og 9 stoðsendingum.

Leikurinn var hnífjafn allan tímann en Njarðvíkingar komust í 74-64 með fímm mínútur eftir af leiknum og virtust vera að ná tökum á leiknum. Gestirnir úr Grindavík létu þó ekki deigan síga og náðu að jafna á meðan heimamenn felldu sig við að skjóta of mikið fyrir utan. Heimamenn höfðu þetta þó og innbyrtu sigur.

Njarðvíkingar verða því í bikarskálinni á morgun þegar dregið verður í 8-liða úrslit en með þeim í pottinum verða Tindastóll, Keflavík, Höttur, KR, ÍR, Breiðablik og Haukar.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

Viðtal við Jóhann Þór Ólafsson eftir leik: