Bikardraumur Grindvíkinga úti, FH-ingar of stór biti að kyngja

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Knattspyrna

Grindvíkingar heimsóttu FH-inga í 16-liða úrslitum Borgunarbikarsins í gær. Fyrirfram bjuggust sennilega flestir við þægilegum heimasigri FH-inga en í bikarnum getur allt gerst og Grindvíkingar voru hvergi bangnir þegar flautað var til leiks. Að lokum voru það þó ódýr víti og lélegar afgreiðslur á færum sem felldu okkar menn og fóru leikar 2-1 fyrir heimamenn.

Strax á 8. mínútu fengu heimamenn víti sem virtist vera frekar ódýrt og hafði Tommy Nielsen orð á því í viðtali eftir leik. FH-ingar voru mun meira með boltann í leiknum en Grindvíkingum tókst engu að síður að skapa sér nokkur góð færi en ekki gekk jafn vel að klára þau. FH-ingar fengu svo annað víti á 35. mínútu en á 87. mínútu setti Hákon Ívar Ólafsson glæsilegt mark með sinni fyrstu snertingu í leiknum.

Í síðustu sókn leiksins hefðu Grindvíkingar svo sennilega átt að fá víti þegar Gylfi Örn Á Öfjörð var rifinn niður í teignum en dómari leiksins virtist vera hættur að fylgjast með og byrjaður að flauta leikinn af, og þar við sat.

Nú geta okkar menn einbeitt sér 100% að deildinni en næsti leikur liðsins er þriðjudaginn 23. júní hér heima gegn HK. Sá leikur átti að fara fram í kvöld en var frestað vegna bikarleiksins.

Textalýsing fótbolta.net