Bestur í 1.deild: Var alveg að gefast upp á þessu

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

,,Þetta gekk vel hjá öllu liðinu og þetta var góður sigur,” segir Jósef Kristinn Jósefsson leikmaður Grindavíkur en hann er leikmaður 6. umferðar í 1. deild karla hjá fotbolti.net. Jósef var mjög öflugur í liði Grindavíkur í 3-0 útisigri á Þrótti en hann skoraði meðal annars frábært mark með hægri fæti.

,,Ég hef aldrei hitt boltann svona vel með hægri. Ég skoraði reyndar flott mark með hægri á móti Keflavík um árið en þetta var flottara,” sagði Jósef léttur í bragði.

Grindvíkingar hafa byrjað tímabilið afar vel en liðið er á toppnum í 1. deildinni með fimmtán stig.

,,Við töpuðum á móti Víkingi í fyrsta umferð þar sem við áttum skilið stig. Þetta er búið að ganga mjög vel síðan þá en það er stórt próf næsta laugardag. Við mætum Leikni og þá kemur í ljós hvort við ætlum að halda áfram þessu gengi eða ekki.”

Grindavík féll úr Pepsi-deildinni í fyrra en liðið hefur komið sterkt til baka í sumar.

,,Ég var meiddur nánast allt tímabilið en samanborið við þennan mánuð sem ég spilaði í fyrra þá er miklu léttara yfir mönnum. Við erum með nokkuð svipðaðan hóp og í fyrra fyrir utan útlendingana. Léttleikinn er meiri og það er miklu meiri stemning í hópnum, það er helsti munurinn.”

Jósef spilaði einungis þrjá leiki í Pepsi-deildinni í fyrra vegna meiðslanna en hann er kominn á fullt núna.

,,Ég var búinn að ströggla með þetta hné í tvö ár og var alveg að gefast upp á þessu. Ég fór í tvær aðgerðir. Ég fór fyrst í speglun í desember (2011) og það virkaði ekki neitt. Þá fór ég í aðra aðgerð þar sem ég var skorinn alveg upp og það gekk vel því að ég er alveg laus við þetta í dag.”

,,Maður er loksins byrjaður að hafa gaman að þessu aftur. Maður hefur ekki gaman af þessu þegar maður er alltaf meiddur,” sagði Jósef að lokum.