Baráttusigur gegn Val

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Grindvíkingar unnu í gærkvöld sinn fyrsta sigur í Pepsi-deild karla með 2-0 sigri á Valsmönnum. Það var fyrst og fremst baráttugleði heimamanna sem skóp sigurinn og svo stórleikur Óskars Péturssonar í markinu. Þetta var fyrsti deildarleikurinn í sumar sem Grindavík fær ekki á sig mark.

Grindavík byrjaði leikinn mun betur og uppskar mark strax á 11. mínútu þegar Pape Mamadou Faye skoraði af stuttu færi eftir fína fyrirgjöf Matthíasar Arnar Friðrikssonar.

Eftir markið sóttu Valsmenn meira án þess þó að skapa sér teljandi marktækifæri. Þeir fengu þó tvö ágæt færi áður en fyrri hálfleikur var úti.

Fyrst Matthías Guðmundsson sem var aleinn á móti Óskari markverði Grindvíkinga en Óskar sá við honum. Þá átti Rúnar Már Sigurjónsson fína aukapspyrnu á lokamínútu hálfleiksins sem Óskar varði vel.

Síðari hálfleikurinn einkenndist af mikilli baráttu út um allan völl. Liðunum gekk illa að skapa sér færi.

Það var ekki fyrr en tæpar 10 mínútur lifðu af leiknum sem Grindvíkingar tvöfölduðu forystu sína þegar Matthías Örn tók frákastið af stangarskoti Ólafs Arnar Bjarnasonar og tryggði Grindavík sinn fyrsta sigur í deildinni.  Sigurinn var um leið sá 100. í efstu deild hjá Guðjóni Þórðarsyni, þjálfara Grindavíkur.

Pape Mamadou Faye skoraði fyrra mark Grindvíkinga í gærkvöld eftir fínan undirbúning frá Matthíasi Erni Friðrikssyni.

„Ég sá að Matti var að koma með boltann fyrir og ég var mættur á réttum tíma á nærstögina. Það er ekki búið að vera gaman hér í Grindavík síðustu vikurnar og ummælin frá Reyni Leóss í Pepsí-mörkunum í síðustu umferð kveiktu í mér fyrir þennan leik”, sagði markaskorarinn Pape við Vísi.

 

1. KR 10 7 1 2 22:13 22
2. FH 9 6 2 1 27:9 20
3. Stjarnan 10 5 4 1 23:17 19
4. ÍBV 9 4 2 3 17:9 14
5. Keflavík 10 4 2 4 18:15 14
6. Breiðablik 10 4 2 4 8:12 14
7. ÍA 10 4 2 4 14:22 14
8. Fylkir 10 3 4 3 12:18 13
9. Valur 10 4 0 6 13:14 12
10. Fram 10 3 0 7 11:16 9
11. Selfoss 10 2 2 6 13:20 8
12. Grindavík 10 1 3 6 14:27 6

Mynd: Matthías Örn skorar seinna markið gegn Val. Mynd: Sport.is