Baráttuleikur í Röstinni en dýrkeypt mistök í lokin kostuðu Grindavík sigurinn

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Topplið KR heimsótti Röstina í kvöld og þó svo að Grindvíkingar hafa fyrir leikinn setið í 9. sæti var ekki að sjá á leik liðsins að þarna færi eitt af lakari liðum deildarinnar. Bæði lið byrjuðu leikinn af krafti varnarlega og einkenndust fyrstu mínúturnar af mistökum á báða bóga sóknarlega. Grindvíkingar voru greinilega staðráðnir í því að hleypa KR-ingum ekki á skeið og héldu fast í við þá og eftir fyrsta leikhluta var staðan 17-19.

Það var sum sé lítið skorað og Grindvíkingar virtust oft vera að reyna full flókna hluti í sókninni sem gengu illa upp. Þá hefði Rodney Alexander sennilega mátt fá boltann oftar í teignum en KR-ingar réðu illa við hann og brutu grimmt á honum. Dómararnir voru reyndar ekki alltaf alveg sammála og fannst mörgum áhorfendum greinilega halla á Grindvíkinga í dómgæslunni og létu vel í sér heyra.

KR-ingar voru þó um það bil einu skrefi á undan Grindvíkingum allan fyrri hálfleikinn. Mestu munaði þar um framlag Michael Craion sem var búinn að safna í myndarlega tvennu strax í hálfleik með 18 stig og 11 fráköst, og bætti 3 stolnum boltum við sitt framlag. Hjá Grindavík var það áðurnefndur Rodney Alexander sem var stigahæstur í hálfeik með 13 stig og 7 fráköst og þá hafði Ólafur Ólafsson sett tvo flotta þrista og var kominn með 7 stig. Staðan í hálfleik 37-41 og allt í járnum.

KR-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn betur og óttuðust sennilega margir áhorfendur að Grindvíkingar væru um það bil að missa leikinn úr höndunum þegar staðan var 41-47 en þá kom afar góður kafli hjá Grindvíkingum þar sem þeir skoruðu 22 stig gegn 9 stigum KR og staðan 63-56 fyrir loka fjórðunginn. Var það ekki síst skrímslatroðsla frá Rodney sem kveikti í heimamönnum. Minntu tilþrifin óneitanlega á risastóra troðslu sem J’Nathan Bullock smellti í andlitið á KR-ingum hér um árið.

Í 4. leikhluta gekk svo allt á afturfótunum hjá heimamönnum. Það tók þá 6 mínútur að skora sín fyrstu stig og þau urðu bara 8 alls. KR-ingar gengu á lagið og jöfnuðu leikinn og komust síðan yfir. Síðustu mínúturnar voru einu orði sagt rafmagnaðar og undirritaður verður að viðurkenna að þær eru í hálfgerðri móðu, slíkt var spennustigið í Röstinni.

Þegar 59 sekúndur voru til leiksloka jafnaði Ómar leikinn fyrir heimamenn úr nokkuð þröngu færi 71-71 en skömmu áður hafði Rodney jafnað úr álíka slæmu færi 69-69. Síðasta mínútan einkenndist af villum og skotum sem geiguðu. Pavel brenndi af opnum þristi þegar örfáar sekúndur voru eftir og Grindvíkingar náðu frákastinu og tóku leikhlé með 1 sekúndu og 43 sekúndubrot á klukkunni. Grindvíkingar tóku síðan innkast en eitthvað klikkaði leikkerfið því boltinn flaug einfaldlega yfir alla leikmennina og útaf hinumegin. Allt virtist stefna í framlengingu en KR áttu þó einn séns og þá gerðist eitthvað alveg ótrúlegt. Allt í einu stóð Craion aleinn undir körfunni og hafði því allan tímann í heiminum til að klára leikinn úr öruggu færi sem hann og gerði. Enn voru þó 20 sekúndubrot á klukkunni og Grindvíkingar höfðu því tíma til að blaka boltanum ofan í úr innkasti. Það innkast fór beint í hendurnar á varnarmanni KR og leikklukkan rann út og KR-ingar sluppu með tæpan sigur.

Heppnin var með KR að þessu sinni. Undir lokin fengu þeir ófáar auka sóknir eftir sóknarfráköst þar sem Grindvíkingar virkuðu hálf sofandi sem kannski endurspeglaðist fullkomlega í sigurkörfu KR-inga. Rodney Alexander var stigahæstur heimamanna með 25 stig en þurfti að hafa mikið fyrir þeim. KR-ingarnir léku fasta vörn á hann og þegar hann á annað borð komst á vítalínuna hitti hann illa (5/9). Craion lék mjög vel fyrir KR, skoraði 28 stig og tók 13 fráköst. Það munaði miklu fyrir Grindvíkinga að Pavel átti fremur rólegan dag með 12 stig en þó 10 stoðsendingar og þá fann Brynjar Þór sig mjög illa í leiknum, með 1/9 í þristum og alls 3/16 í skotum (19%).

Tölfræði leiksins

Myndasafn (karfan.is)

Þessi umfjöllun birtist áður á karfan.is