Andri Rúnar Bjarnason leikmaður 4. umferðar

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Knattspyrna

Andri Rúnar Bjarnason var valinn besti leikmaður 4. umferðar Pepsi-deildar karla af vefmiðlinum Fótbolta.net en Andri skoraði þrennu í sigri Grindavíkur á ÍA á mánudaginn. Við birtum hér að neðan umfjöllun Fótbolta.net og viðtal:

„Ég held að ég geti sagt að þessi leikur sé klárlega þarna uppi með bestu leikjum ferilsins. Ég hef kannski átt einhverja betri yfir heildina en ekki í Pepsi-deildinni,” sagði Andri Rúnar Bjarnason við Fótbolta.net í dag.

Andri Rúnar skoraði þrennu fyrir Grindavík í 3-2 sigri á ÍA í gær. Hann er leikmaður 4. umferðar í Pepsi-deildinni.

Hinn 27 ára gamli Andri segist vera í miklu betra formi á þessu tímabili heldur en undanfarin ár.

„Ég breytti nánast öllu í haust hjá mér. Mér fannst vera kominn tími á að koma mér í alvöru stand svo ég gæti sýnt það að ég á heima í þessari deild. Ég byrjaði bara á þessu klassíska að breyta mataræðinu hjá mér og fara fyrr að sofa. Svo var ég duglegur að fara aukalega í ræktina að lyfta og hlaupa. Það er að skila sér núna,” sagði Andri.

Eftir leikinn í gær sagði Ásgeir Þór Ingólfsson, fyrrum liðsfélagi Andra hjá Grindavík, á Twitter: „Andri Rúnar er ekki vegan, hann elskar dominos og buffalo wings. Hann er að fara sigla þessum markakongstitil i sumar ! KING.”

„Þetta tweet átti vel við í fyrra þegar Geiri var að draga mann í einhverja þvæluna,” sagði Andri og hló aðspurður út í Twitter færsluna. „En hann er í sama pakka og ég núna, kominn í toppform í Noregi. Núna erum við báðir farnir að hugsa betur um það hvað við borðum, þó við leyfum okkur einstöku sinnum.”

Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur, hefur mikla trú á Andra Rúnari og hann segir það hjálpa mikið.

„Klárlega. Óli og Jankó hafa báðir sýnt mér mikið traust og þolinmæði. Þeir eru alltaf tilbúnir að hjálpa og finna leiðir til að fá sem mest út úr manni. Síðan ég kom til þeirra í fyrra er ég búinn að bæta mig helling,” sagði Andri en hvert er markmið hans í markaskorun í sumar?

„Ég setti mér nokkur markmið fyrir sumarið og ég veit ekki hvort ég vilji opinbera þau öll. Eitt af þeim var samt að skora þrennu,” sagði Andri að lokum.