Haukar heimsóttu Mustad höllina í gær í leik sem var í raun upp á líf og dauða fyrir Grindvíkinga. Tap myndi þýða að úrslitakeppnin væri nánast úr sögunni en það var þó ekki að sjá á leik þeirra að það væri mikið undir í þessum leik. Meðan Haukarnir léku við hvurn sinn fingur sveif algjört andleysi yfir vötnum hjá heimamönnum sem sáu aldrei til sólar í þessum leik. Lokatölur 71-105 og stærsti sigur Hauka á Grindavík frá upphafi staðreynd.
Karfan.is gerði leiknum góð skil:
Barja í banastuði er Haukar kjöldrógu Grindavík
Sögulegur sigur Hauka
Haukar unnu í kvöld sinn stærsta sigur á heimavelli Grindavíkur í sögu Hafnfirðinga. Lokatölur 71-105 í Mustad-höllinni þar sem heimamenn voru flatir og linir gegn sprækum Hafnfirðingum. Emil Barja átti stórkostlegan leik í liði Hauka og gerði 35 stig með lygilegri nýtingu eða 8-9 í teignum, 6-7 í þristum og 1-1 á vítalínunni. Með þessum 35 stigum gerði Emil jafn mörg stig í kvöld og hann hefur gert í síðustu fjórum leikjum með Haukaliðinu!
Leikurinn fékk ljómandi gott start en Grindvíkingar virtust ekki taka eftir því, sýndu smá takta á upphafsmínútunum en Haukar tóku svo við stjórnartaumunum og leiddu 16-25 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Emil Barja setti niður hvert skotið á fætur öðru. Heimamenn voru flatir í sínum varnarleik og það hélt áfram inn í annan leikhluta.
Um miðbik annars leikhluta tóku Haukar sig til og slitu sig enn lengra frá Grindvíkingum, breyttu stöðunni úr 20-33 í 22-43 og leiddu svo 32-54 í hálfleik. Emil Barja steig vart feilspor en hann, Kári Jónsson og Brandon Mobley voru með 44 af 54 stigum Hauka í fyrri hálfleik.
Emil var með 20 stig og 100% skotnýtingu í leikhléi, 4-4 í teignum og 4-4 í þristum og þá var hann einnig með 4 fráköst en Þorleifur Ólafsson var stigahæstur hjá flötum heimamönnum með 10 stig í leikhléi. Ljóst að um örugg tvö stig í sarp Hauka yrði að ræða ef Grindvíkingar næðu ekki að pumpa upp stemmninguna í sínum herbúðum.
Í þriðja leikhluta splæsti Emil Barja í fjögurra stiga sókn, skellti þrist og fékk villu að auki og vítið að sjálfsögðu rataði rétta leið og það tók Hauka ekki langan tíma að kæfa leikinn endanlega. Hafnfirðingar leiddu 48-83 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Emil var með 33 stig á 16 mínútum í kvöld og brenndi ekki af sínu fyrsta skoti fyrr en þriðji leikhluti var um það bil hálfnaður.
Fjórði leikhluti er ekkert til umræðu, heimamenn voru aldrei líklegir til að gera neitt enda meira en bognir þegar hér var komið við sögu og lokatölurnar 71-105 færðu Haukum sögulegan sigur úti í Grindavík. Fyrir leikinn í kvöld var stærsti sigur Hauka á Grindvíkingum á þeirra eigin heimavelli 19 stig og tvisvar hafði það komið fyrir áður, 2011 og 1998. Sigurinn í kvöld var níundi sigur Hauka á heimavelli Grindavíkur á Íslandsmótinu og fyrir leikinn í kvöld hafði Emil Barja mest gert 16 stig í einum deildarleik þetta tímabilið og ljóst að með hækkandi sól fer Barja á ról.
Jón Axel Guðmundsson og Þorleifur Ólafsson voru báðir með 12 stig í liði Grindavíkur í kvöld en í Mustad-höllinni þarf að fara fram nokkuð rækileg naflaskoðun ef Grindvíkingar eiga að ná inn í úrslitakeppnina. Grindavík á eftir Tindastól á útivelli og í lokaumferðinni mætir liðið Njarðvík. Með spilamennsku kvöldsins er ekki fræðilegur möguleiki á því að þeir fái stig út úr þessum tveimur leikjum.
Brandon Mobley bætti svo við 21 stigi hjá Haukum í kvöld og Kristinn Marinósson kom með fínar rispur inn af bekknum en maður leiksins var vafalítið Emil nokkur Barja.
* Fyrir leikinn í kvöld hafði Emil Barja mest gert 16 stig í einum leik í deildinni en það var gegn Tindastól.
* Fyrir leikinn í kvöld var stærsti deildarsigur Hauka í Grindavík 19 stiga sigur árið 2011 og 1998.
* Sigrar Hauka á heimavelli Grindavíkur/ úrslitakeppni meðtalin:
Grindavík 71-105 Haukar (34 stiga sigur 2016)
Grindavík 63-82 Haukar (19 stiga sigur 2011)
Grindavík 91-97 Haukar (6 stiga sigur 2002)
Grindavík 94-113 Haukar ( 19 stiga sigur 1998)
Grindavík 67-68 Haukar (1 stig sigur 1996)
Grindavík 93-100 Haukar (7 stiga sigur 1995)
Grindavík 69-70 Haukar ( 1 stig sigur – úrslitakeppni 1993)
Grindavík 92-96 Haukar ( 4 stiga sigur 1991)
Grindavík 64-65 Haukar ( 1 stigs sigur 1990)
Viðtal við Lalla eftir leik, en hann hafði engin svör á reiðum höndum