Alexander bjargaði stigi á Eskifirði

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Knattspyrna

Grindavík heimsótti Eskifjörð í Inkasso-deildinni á laugardaginn þar sem heimamenn í Fjarðabyggð tóku á móti okkar mönnum. Hlutskipti liðanna í deildinni framan af sumri hafa verið nokkuð ólík, Grindavík í toppbaráttunni en Fjarðabyggð við botninn með einn sigur í sarpinum. Það hefur þó örlítið fjarað undan góðri byrjun Grindvíkinga og liðið ekki landað sigri í mánuð, eða síðan liðið lagði Leikni frá Reykjavík, 4-0 þann 2. júní.

Ekki kom sigurinn í þetta skiptið, og mátti minnstu muna að Fjarðabyggð færi með öll 3 stigin úr leiknum en Alexander Veigar Þórarinsson minnkaði muninn í 2-1 í seinni hálfleik og tryggði Grindavík svo 2-2 jafntefli með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

Grindavík er því áfram í 3. sæti deildarinnar en 5 stigum á eftir toppliðunum að norðan, KA og Þór. Næsti leikur Grindavíkur er einmitt gegn Þórsurum, hér í Grindavík laugardaginn 9. júlí kl. 16:00.

 

Mynd: Fótbolti.net