Alexander áfram hjá Grindavík þrátt fyrir áhuga úr efstu deild

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Alexander Magnússon mun að öllum líkindum leika áfram með Grindavík í fyrstu deildinni næsta sumar þrátt fyrir að félög í Pepsi-deildinni hafi sýnt honum áhuga. Alexander hefur meðal annars verið sterklega orðaður við Keflavík en nú lítur út fyrir að hann verði áfram hjá Grindavík nema eitthvað félag geri tilboð í hann.

Þetta kemur fram á fótbolti.net.

,,Það er einhver áhugi frá félögum í Pepsi-deildinni sem ég hef heyrt í gegnum Magnús Agnar umboðsmann minn. Ég er hins vegar samningsbundinn Grindavík út árið 2014 og félagið vill halda lykilmönnum sínum til að gera allt til að spila meðal þeirra bestu á nýjan leik,” sagði Alexander við Fótbolta.net.

,,Ég er sjálfur búinn að funda með stjórn Grindavíkur þar sem ég vil náttúrulega spila í Pepsi-deildinni. Ég átti mjög erfitt með að sætta mig við að spila í 1.deildinni á næsta ári en það þýðir ekkert að grenja yfir þessu lengur þar sem þetta er bara ekkert í minum höndum.”

Alexander hefur verið fastamaður í liði Grindvíkinga undanfarin þrjú ár en hann mun í dag fara í aðgerð vegna meiðsla sem voru að hrjá hann í sumar.

,,Ég verð að öllum líkindum rólegur í boltanum og hlaupum fram að áramótum þar sem ég er að fara í speglun á hné. Ég þarf að láta laga rifinn liðþófa frá því í sumar og ætla að ná mér alveg áður en fjörið byrjar eftir áramót. Ég get hreinlega ekki beðið eftir því að geta byrjað að sprikla á fullu í fótboltanum með strákunum.”