Actavismót Hauka

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Actavis-mót Hauka í körfubolta fór fram á Ásvöllum um síðastliðna helgi. Meðal keppenda þar
var hópur barna með sérþarfir sem körfuboltamaðurinn Kristinn Jónasson hefur þjálfað í Ólafssal
síðan haustið 2018. Af tíu leikmönnum í liðinu voru tveir út Grindavík, þeir Hilmir og Kristján
Patrekur. Kristinn, þjálfari liðsins, sagði í samtali við vefsíðuna Hafnfirðingur að smám saman
hafi æfingarnar þróast með meiri spilamennsku, skotkeppnum og fleiru, sem hafi skilað sér í því
að liðið keppti í fyrsta sinn á mótinu.

Sólný Pálsdóttir, móðir Hilmis var á mótinu og tók meðfylgjandi myndir. Hún segir þessar
æfingar vera fyrir börn með þroskahömlun á aldrinum 6-12 ára. Áhugasamir geti sett sig í
samband við hana. 

Eftirfarandi er tekið úr viðtalinu við Kristinn: 
Á fyrstu æfingar þessa hóps haustið 2018 mættu 2-3 börn með sérþarfir en hægt og rólega yfir
þann vetur jókst þetta og að lokum voru um 10-12 börn að mæta með reglulegu millibili.
„Þennan fyrsta vetur vorum við að einbeita okkur að grunnhreyfifærni fyrir körfuboltaiðkun eins
og að hlaupa aftur á bak og til hliðar, drippla, grípa og kasta í körfu en mörg þessara barna höfðu
stundað íþróttina áður með markvissum hætti. Við vorum lítið farin að spila í lok síðasta vetrar
en höfðum þó prufað einfaldar 1 á 1 æfingar og þess háttar til þess að fá tenginguna við sókn og
vörn,“ segir þjálfarinn Kristinn.

5 þjálfarar í dag og 10-15 börn sem æfa
Þennan vetur sem nú er að líða segir Kristinn að hópurinn hafi stigið hressilega stigið á gjöfina
og reynt t.d. að spila á hverri æfingu, taka skotkeppnir, hindrunarboðhlaup þar sem þarf að rekja
boltann og margt fleira. „Við gætum þess þó alltaf að börnin fái góða upphitun og árangursríkar
teygjur í lok æfingar. Skömmu fyrir jól töldum við þjálfarateymið flesta vera orðnir þannig í
stakk búna að hægt væri að fara með þau á mót þar sem þau gætu spilað við önnur börn. Það var
því borið undir foreldra sem tóku mjög vel í tillögur okkar þjálfarana en við erum í dag 5 talsins
og börnin sem mæta eru oftast á bilinu 10-15.“

Mun aldrei gleyma fyrri leiknum
Hópurinn spilaði tvo leiki á mótinu um síðastliðna helgi en þeim fyrri segir Kristinn að hann
muni líklega aldrei gleyma. „Flest börnin voru að taka þátt á sínu fyrsta körfuboltamóti og kom
því hressilega á óvart hvað þau voru vel gíruð í þetta frá fyrstu sekúndu, alveg óhrædd og tilbúin
í baráttuna.“ Þá hafi verið ómetanlegt að sjá stuðninginn sem krakkarnir fengu frá áhorfendum en
og það hafi verið sérstaklega flott að sjá hóp af 8-9 ára strákum úr Stjörnunni sem hvatti þá áfram
með því að segja „Áfram Ísland!“.
„Ég ætla að vona að þetta verði ekki í síðasta skiptið sem þessir krakkar fá að heyra þau
hvatningarorð en endanlegt markmið okkar þjálfaranna er á einhverjum tímapunkti að fara með
hóp af börnunum með sérþarfir á heimsleika Special Olympics, sem fulltrúar Íslensku
þjóðarinnar.“

Eftir árangur þessa móts segir Kristinn að lokum að hópurinn stefni að sjálfsögðu á að keppa
aftur. „Við höfum 1-2 mót í sigtinu áður en yfirstandandi vetri líkur, þannig við verðum sjáanleg
á komandi misserum,“ segir Kristinn afar stoltur að lokum.
Fleiri myndir eru undir tenglinum af vefsíðunni Hafnfirðingur.