Nú eru aðeins átta dagar í bikarúrslitaleik Grindavíkur og Stjörnunnar og svo risa þorrablótið í íþróttahúsinu. Upphitun er hafin og kominn tími til að heyra hljóðið í Þorleifi Ólafssyni fyrirliða Grindavíkurliðsins. Hann var fenginn til þess að rifja upp bikarúrslitaleikina sem hann hefur spilað.
„Þetta verður í fjórða skipti sem ég mæti í Laugardalshöllina. Ég hef unnið einn úrslitaleik og tapað tveimur. Þegar ég rifja þessa leiki man ég sigurleikinn nánast í smáatriðum en ég man varla eftir tapleikjunum, sem segir nú allt sem segja þarf um hvernig maður upplifir sigur og tap þegar svona mikið er í húfi,” segir Þorleifur Ólafsson fyrirliði Grindavíkinga þegar púlsinn var tekinn á honum fyrir bikarúrslitaleik Grindavíkur og Stjörnunnar.
Fyrsti bikarúrslitaleikur Þorleifs var 2006 þegar Grindavík skellti Keflavík í úrslitaleik í Laugardalshöllinni 93-78. Þorleifur byrjaði inn á og átti góðan leik.
„Ég spilaði helling og þetta gekk vel. Gömlu mennirnir Pétur Guðmundsson og Helgi Jónas Guðfinnsson fóru á kostum og þarna sýndi sig hversu reynslan er mikilvæg í svona stórleikjum. Það var talsverð spenna í leiknum lengst af en við höfðum yfirhöndina og kaninn okkar átti stórleik. Þetta var ótrúlega skemmtilegt, mikil spenna og minn fyrsti titill í meistaraflokki. Við fögnuðum þessu vel og lengi. Ég var einmitt að rifja þennan leik upp um daginn með Sverri þjálfara en hann var þarna leikmaður Keflavíkur og réði ekkert við mig,” sagði Þorleifur léttur í bragði. Þetta var fjórði bikarmeistaratitilinn í sögu Grindavíkur.
Næsti bikarúrslitaleikur Grindavíkur var 2010 gegn Snæfelli. „Ég man eiginlega ekkert eftir þessum leik, nema að þeir unnu nokkuð örugglega. Helsta minningin er hversu öskufúll ég var eftir leikinn,” segir Þorleifur en Snæfell vann með 11 stiga mun, 92-81, og varð bæði Íslands- og bikarmeistari þetta árið. Þorleifur lék í tæpar 20 mínútur og skoraði 16 stig og var besti leikmaður Grindavíkur en það dugði skammt.
Árið eftir mætti Grindavík aftur í Laugardalshöllina og nú voru andstæðingarnir KR.
„Þetta var nokkuð sannfærandi tap hjá okkur gegn KR. Útlendingamálin okkar voru í tómu rugli, við vorum nýbúnir að skipta um útlending sem stóðst ekki væntingar og var svo rekinn skömmu síðar. Ég lagði mig fram um að gleyma þessum leik og það hefur tekist,” segir Þorleifur. KR vann Grindavík örugglega 94-72 og lék Þorleifur í tæpar 11 mínútur og komst ekki á blað í leiknum