243 áhorfendur sáu Grindavík tapa fyrir Breiðablik

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Grindavík steinlá fyrir Breiðablik í úrvalsdeild karla í knattspyrnu í gærkvöld, 2-4. Blikar skoruðu öll mörk sín í fyrri hálfleik en Óli Baldur Bjarnason og Hafþór Ægir Vilhjálmsson klóruðu í bakkann fyrir Grindavík.  Aðeins 243 áhorfendur mættu á leikinn samkvæmt leikskýrslu KSÍ.

,,Maður er bara orðlaus yfir okkar frammistöðu í sumar,” sagði Óskar Pétursson markvörður Grindavíkur eftir 4-2 tap liðsins gegn Breiðabliki í kvöld.

,,Fyrri hálfleikurinn var okkur til hálborinnar skammar. Það er ekki einn maður í þessu liði sem getur staðið uppi og sagst hafa gefið sig allan fram í þetta.”

,,Þetta hefur verið óútskýranlega lélegt hjá okkur. Maður er hrikalega sár núna og að það sé einhver uppgjafartónn að koma upp lætur mann líða illa.”

Grindvíkingar eru tíu stigum frá öruggu sæti þegar fjórir leikir eru eftir en Óskar sér ennþá vonarglætu.

,,Þetta er farið að verða hrikalega erfitt en ég er ekki hættur og við erum ekki hættir. Sama hvernig þessir fjóru síðustu leikir fara þá skulum við gefa okkur alla í þetta og sýna allt annað andlit.”

Staðan í deildinni þegar 4 umferðir eru eftir:

1. FH 18 13 2 3 43:17 41
2. KR 18 9 4 5 32:23 31
3. Stjarnan 18 7 8 3 37:31 29
4. ÍBV 18 8 4 6 28:16 28
5. ÍA 18 8 4 6 27:31 28
6. Breiðablik 18 7 5 6 22:24 26
7. Valur 18 8 0 10 28:27 24
8. Keflavík 18 7 3 8 27:30 24
9. Fylkir 18 6 5 7 22:34 23
10. Fram 18 6 2 10 27:29 20
———————————- 
11. Selfoss 18 5 3 10 25:34 18
12. Grindavík 18 2 4 12 25:47 10