Það er ljóst að Grindvíkingar munu mæta til leiks með nokkuð breyttan leikmannahóp í Domino's deild karla á næsta tímabili, en að minnsta kosti þrír leikmenn liðsins verða að öllum líkindum ekki með liðinu á næsta ári.
Fyrirliði liðsins, Þorsteinn Finnbogason, gaf það út á Twitter á dögunum að hann væri að leita sér að nýju liði og þá á höfuðborgarsvæðinu. Þorsteinn er ungur maður á uppleið og vinnur í Reykjavík og því skiljanlegt að hann vilji komast í lið á svæðinu. Samkvæmt okkar heimildum eru umboðsmenn Þorsteins einnig að þreifa fyrir sér í pólsku 1. deildinni en lítið hefur komið útúr þeim viðræðum.
Mig vantar nýtt körfuboltalið á höfuðborgasvæðinu fyrir næsta tímabil. Ég á helling inni og verð í fantaformi. Dominos eða 1.deild.
— Þorsteinn Finnbogaso (@goltti) April 4, 2018
Þá hefur hinn ungi og efnilegi Ingvi Þór Guðmundsson gefið það út að hann hafi áhuga á að reyna fyrir í bandaríska háskólaboltanum. Í samtali við karfan.is sagði Ingvi:
„Það er á planinu að fara út í skóla. Er með tvo skóla í sigtinu sem ég á eftir að skoða betur. Mun væntanlega skýrast eitthvað á næstu vikum“
Ingvi er án vafa einn af efnilegri leikmönnum Grindavíkur og verður það því töluverð blóðtaka fyrir liðið að missa hann, en að sama skapi er það einstakt tækifæri fyrir unga leikmenn að þroska sinn leik í bandaríska háskólaboltanum og óskum við Ingva að sjálfsögðu alls hins besta í komandi verkefnum og vonum að hann fái inn í góðum skóla.
Að lokum er það svo reynsluboltinn Ómar Örn Sævarsson, sem gaf það út fyrir tímabilið að hann myndi hætta að því loknu. Ómar, sem fæddur er árið 1982, hefur leikið með Grindavík síðan 2009. Þrátt fyrir að vera uppalinn í og oft kenndur við ÍR, þá hefur Ómar safnað fleiri leikjum í sarpinn með Grindavík en uppeldisfélaginu og er orðinn rótgróinn Grindvíkingur. Verður hans án vafa sárt saknað bæði innan og utan vallar en það þyrfti þó ekki að koma neinum á óvart þó hann yrði áfram viðloðandi grindvískan körfubolta í einhverri mynd.
Ómar hefur þó ekki sent frá sér neina formlega tilkynningu um að skórnir séu farnir á hilluna frægu, svo það er aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér.