„Við gerðum það sem lagt var upp með og spiluðum mjög vel í kvöld, sérstaklega í vörninni. Við eigum að vera með sterkara lið – staðan í deildinni sýnir það. En menn verða mæta tilbúnir til leiks í úrslitakeppninni og gera það sem fyrir þá er lagt. Það gerðum við í kvöld,” sagði Helgi Jónas Guðfinsson, þjálfari Grindavíkur, við Vísi.
Hann segist vera ánægður með bætt hugarfar sinna manna. „Þetta er allt á uppleið. Við vorum með hausinn í rassgatinu í nokkrum leikjum á síðustu vikum en þetta er allt á réttri leið hjá okkur. Nú er næsti leikur á sunnudaginn og það er ljóst að ef við spilum eins þá og við gerðum í kvöld förum við langt með að klára þetta einvígi. En þó er ekkert unnið fyrirfram.”
„Varnarleikurinn skilaði okkur þessum sigri í kvöld. Grindavíkurliðið hefur stundum verið þekkt fyrir að vera með þriggja stiga skotsýningar en það var ekkert slíkt upp á teningnum í kvöld. Það er bara varnarleikurinn sem mestu máli skiptir og ekkert annað.”
Páll Axel: Menn voru tilbúnir
„Við lögðum upp með ákveðna hluti og við gerðum þá vel. Þetta var góður sigur,” sagði Páll Axel Vilbergsson eftir leikinn í kvöld við Vísi. „Heilt yfir spiluðum við góðan varnarleik og ég var sáttur við hann.”
Hann var ánægður með hugarfarið hjá sínum mönnum. „Ég fann það strax þegar ég kom inn í klefa fyrir leik – menn voru tilbúnir fyrir þennan leik og kláruðu sitt mjög fagmannlega í kvöld.”
„Næsti leikur er á sunnudaginn og stefnum við á að vinna hann eins og alla leikinn. En það verður verðugt verkefni að ætla að ná í sigur í Njarðvík. Við fáum ekkert gefins þar og stefnum við á að mæta einnig tilbúnir í þann leik.”
Mynd: Snorri S.