Ray Anthony og félagar í Filippseyjum kræktu í brons

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Ray Anthony Jónsson, leikmaður Grindvíkinga, hefur undanfarnar vikur tekið þátt í áskorendabikar Asíu með landsliði Filippseyja. Bestu þjóðir Asíu hafa ekki þátttökurétt á mótinu en það fer fram á tveggja ára fresti.

Mótið fór að þessu sinni fram í Nepal en Ray átti fast sæti í liði Filippseyja sem endaði í þriðja sætinu.

Lið Filippseyja tapaði 2-1 gegn Túrkmenistan í undanúrslitunum en sigraði síðan lið Palestínu 4-3 í leik um þriðja sætið. Norður-Kórea sigraði mótið en liðið lagði Túrkmenistan 2-1 í úrslitum.

Ray hefur misst af fyrstu leikjum Grindvíkinga í Lengjubikarnum vegna þáttöku í áskorendabikarnum en hann hefur verið ytra síðan í byrjun febrúar.

Fyrst fór Ray í æfingabúðir með Filippseyjum áður en sjálfur áskorendabikarinn tók við en leikmaðurinn ætti að vera klár í slaginn á nýjan leik fyrir leik Grindavíkur gegn Fjölni á laugardag.

Ray, sem er 33 ára bakvörður, hóf að leika með landsliði Filippseyja árið 2010 en móðir hans er þaðan. Samtals hefur Ray leikið 24 landsleiki með Filippseyjum.