Grindavík steinlá fyrir Snæfelli í Röstinni í gærkvöldi 89-101. En Grindavík hafði þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn og Páll Axel Vilbergsson fyrirliði tók á móti titlinum í leikslok.
Grindavík lék án Giordon Watson og munaði um minna.
“Við vorum bara skítlélegir í dag. Það er ekkert flóknara en það,” sagði fyrirliði Grindavíkur, Páll Axel Vilbergsson, við Vísi allt annað en kátur rétt áður en hann lyfti deildarmeistaratitlinum.
“Það á ekkert að vera erfitt að gíra sig upp í leikinn þó svo við séum búnir að vinna deildina. Það er bara aumingjaskapur og þvæla.
“Ég veit ekki hvað er að. Ef við förum svona í úrslitakeppnina þá er ekki von á góðu. Við verðum að gjöra svo vel að gíra okkur upp. Við höfum fengið mörg spörk í afturendann í vetur en það hefur ekki skilað neinu.
“Það er verst að vera svona skítlélegir og algjörlega meðvitaðir um það,” sagði Páll Axel en hann brosti ekki mikið er hann lyfti bikarnum.
Grindavík: J’Nathan Bullock 25/13 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 18/5 fráköst, Þorleifur Ólafsson 13, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 7/9 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 7/7 fráköst, Ólafur Ólafsson 6/5 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 6/5 fráköst, Ryan Pettinella 4/4 fráköst, Björn Steinar Brynjólfsson 3.
Myndir: Víkurfréttir.