Það þurfti tvíframlengdan leik og hetjulega frammistöðu frá reynsluboltanum Páli Axel Vilbergssyni til þess að landa sigri gegn botnliði Hauka sem er undir stjórn Grindvíkingsins Péturs Guðmundssonar.
Það var mikil spenna í leik Hauka og Grindavíkur í Hafnarfirði, sérstaklega á lokamínútum fjórða leikhluta og í framlengingunum. Svo fór að Grindavík vann ótrúlegan sigur eftir að Haukar fóru afar illa að ráði sínu á vítalínunni þegar mest á reyndi, að því er Vísir greinir frá.
Páll Axel Vilbergsson skoraði síðustu fimm stig Grindavíkur í leiknum og sá því til þess að hans menn náðu að vinna sigur í ótrúlegum leik. Grindavík er nú með tíu stiga forystu á toppnum en Haukar sitja sem fyrr í fallsæti með átta stig.
Haukar voru með undirtökin lengi vel í fjórða leikhluta en Grindavík náði að svara fyrir sig og komast yfir, 74-71, þegar rúm mínúta var eftir.
Hayward Fain kom svo sínum mönnum inn í leikinn með tveimur körfum í röð en Jóhann Árni Ólafsson kom Grindvíkingum aftur yfir þegar sextán sekúndur voru eftir. Staðan því orðin 76-75, Grindavík í vil.
En á síðustu átta sekúndum leiksins komust Haukar tvívegis á vítalínuna – í bæði skiptin eftir að Sigurður Þorsteinsson hafði brotið af sér. En Haukum tókst aðeins að setja eitt vítaskot niður. Fyrst fór Fain á vítalínuna og setti aðeins annað skotið niður og Alik Joseph-Pauline brenndi síðan af báðum sínum vítaskotum rétt áður en leiktíminn rann út.
Tvíframlengja þurfti leikinn því liðin voru enn jöfn eftir þá fyrri, 86-86. Hvorugu liði tókst reyndar að skora á lokamínútu hennar.
Haukar voru á góðri leið með að sigla fram úr í seinni framlengingunni. Christopher Smith fór mikinn og skoraði sex af sjö stigum sinna manna sem voru með fjögurra stiga forystu, 93-89, þegar ellefu sekúndur voru eftir.
Þá tók Páll Axel leikinn í sínar hendur og setti niður þriggja stiga skot. Haukar tóku leikhlé en að því loknu brutu Grindvíkingar um leið á Joseph-Pauline sem aftur tókst að klúðra báðum sínum vítaköstum.
Páll Axel setti svo niður tveggja stiga skot þegar tvær sekúndur voru eftir og tryggði þar með Grindavík sigurinn.
Fain skoraði 39 stig fyrir Hauka og tók tólf fráköst. Smith kom næstur með sautján stig. Hjá Grindavík var Giordan Watson stigahæstur með 25 stig en Sigurður Þorsteinsson var með fjórtán.
Haukar-Grindavík 93-94 (25-16, 15-26, 15-12, 21-22, 10-10, 7-8)
Grindavík: Giordan Watson 25/6 fráköst/6 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 14/8 fráköst/3 varin skot, J’Nathan Bullock 13/16 fráköst, Ryan Pettinella 10/15 fráköst/6 varin skot, Páll Axel Vilbergsson 8, Ólafur Ólafsson 7/4 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 5, Björn Steinar Brynjólfsson 4, Ómar Örn Sævarsson 4, Þorleifur Ólafsson 4.