Grindavík burstaði botnlið Vals

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Grindvíkingar styrktu stöðu sína á toppi Iceland Express deildar karla með 38 stiga sigri á botnliði Valsmanna, 119-81 í Grindavík í gærkvöld. Þetta var áttundi deildarsigur Grindvíkinga í röð. Valsmenn eru enn án stiga.

J´Nathan Bullock var stigahæstur hjá Grindavík með 19 stig, Páll Axel Vilbergsson skoraði 16 stig og Sigurður Gunnar Þorsteinsson 15 stig.

Grindavík var 33-21 yfir eftir fyrsta leikhlutann og með 29 stiga forskot í hálfleik, 67-38. Grindavík var 33 stigum fyrir lokaleikhlutann og vann að lokum með 38 stigum, 119-81.

Grindavík er nú búið að vinna átta leiki í röð en Valsmenn hafa hinsvegar tapað öllum sextán leikjum sínum. Grindvíkingar eru með átta stiga forskot á toppnum þegar sex umferðir eru eftir.