Á síðasta fundi bæjarráðs var lögð fram lokaskýrsla vinnuhóps vegna framtíðaruppbyggingu íþróttamannvirkja í Grindavík. Bæjarráð vísaði tillögunum til endanlegrar afgreiðslu í bæjarstjórn. Fram kemur að í allri vinnu var horft til þeirra krafna sem bæjarstjórn setti vinnuhópnum í upphafi.
Forsendur
Á fundi bæjarstjórnar 28. sept. sl. voru eftirfarandi forsendur settar nefndinni:
Að sameina inngang og afgreiðslu íþróttahúss og sundlaugar með það markmiði að nýta starfsfólk sem best og að inngangurinn sé skemmtilegur og aðlaðandi fyrir gesti og gangandi.
• Að íþróttahúsið geti nýst sem veislusalur fyrir 350-400 gesti á snyrtilegan og einfaldan hátt
• Að körfuknattleiksvöllur verði löglegur.
• Að bæta æfingaaðstöðu fyrir júdódeild og taekwondo
• Að bæta æfingaaðstöðu og áhaldageymslu fyrir fimleikadeild.
• Að almenningsíþróttir fái að njóta sín.
• Að húsnæðið rúmi sameiginlega aðstöðu fyrir deildir UMFG til funda og skrifstofuhalds.
• Að bygginging sé í samræmi við aðrar byggingar á reitnum, látlaus og að fermetrar nýtist sem best.
Fjórir áfangar
Vinnuhópurinn leggur til að verkinu verði skipt í fjóra áfanga.
Forsendur miða við endurskipulag á eldra húsnæði með breyttri nýtingu auk nýbygginga. Byggingaráformin á íþróttasvæðinu sem hér eru kynnt má skipta niður í a.m.k. 4 áfanga, en þeir eru:
1. Stækkun íþróttahúss, þar sem byggt er við salinn til suðurs.
2. „Íþróttamiðstöð Grindavíkur” viðbygging við íþróttahús, með tengigöngum að sundlaugarbyggingu að norðan og að búningsklefum knattspyrnu að sunnan.
3. Innanhússbreytingar íþróttahúss þar sem fyrirkomulag á aukarýmum er breytt.
4. Innanhússbreytingar sundlaugarbyggingar þar sem innréttuð er líkamsræktaraðstaða í stað núverandi aðstöðu.
Þrjú atriði vega þungt í hönnun aðstöðunnar
• Aðgengismál. Aðgengi allra skal vera tryggt að allri starfsemi bygginganna og tekið verði tillit til ólíkra tegunda fötlunar við útfærslu.
• Vinnuvistfræði og öryggismál. Íþróttahús er vinnustaður ólíkra hópa og því mikilvægt að taka sérstakt tillit til þeirra í hönnunarvinnunni.
• Veðurfarsaðlögun. Ný mannvirki verði hönnuð með sérstöku tilliti til skjólmyndunar umhverfis þau einkum við innganga.
Kostnaður
Gerð var krafa um áætlaðan fjárfestingarkostnað samhliða þessari áfangaskýrslu. Upplýsingar um áætlaðan kostnað er að finna á bls. 12 í frumdrögum frá Batterínu. Heildarkostnaður er áætlaður 714.516.000 kr. fyrir samtals 2.004 m2.
Nú þegar hefur verið leitað til PricewaterhouseCoopers (PWC) og óskað eftir úttekt þeirra til að meta áhrif fjárfestinga á fjárhagsafkomu sveitarsjóðs með tilvísan í 65. gr. laga nr. 45/1998. PWC hefur skilað sínu mati og þar er megin niðurstaðan þessi: „Heildaráhrif þessarar fjárfestingar á sjóðsstreymi sveitarfélagsins verða á bilinu 27,5 – 31 mkr. á ári fyrstu 10 árin en að liðnum 10 árum ættu þau að verða um 37,6 mkr. Þessu til viðbótar aukast afskriftir varanlegra rekstrarfjármuna sem nemur 2,5% af fjárfestingunni en það samsvarar tæplega 17 mkr. á ári. Þetta leiðir til þess að áhrif fjárfestingar á rekstrareikning sveitarfélagsins gæti numið um 44 – 48 mkr. á ári fyrstu 10 árin.”
Í lokin vill nefndin koma á framfæri þökkum til þeirra Sigurðar Einarsson og Sigurbjarts Loftssonar á Batterinu fyrir samvinnuna við gerð skipulags- og frumdraga fyrir íþróttasvæðið.
Hér geta bæjarbúar kynnt sér nánar lokaskýrslu vinnuhópsins og svo frumdrög að framtíðar uppbyggingu íþróttamannvirkjanna:
Lokaskýrsla vinnuhóps um framtíðaruppbyggingu íþróttamannvirkja
Frumdrög að framtíðaruppbyggingu íþróttamannvirkja
Efsta mynd: Afgreiðslan.
Anddyrið. Vinnuhópurinn telur það víst að aðsókn, að nýrri íþróttamiðstöð, með öllum þeim möguleikum sem hún mun hafa upp á að bjóða, muni margfaldast miðað við það sem er í dag og því er lagt upp með rúmgóðu anddyri (120 m2) og afgreiðslu sem getur tekið við öllum þeim gestum sem sækja íþróttamiðstöðina hvort sem um er að ræða sundlaugargesti, skólahópa í leikfimi eða sund, iðkendur UMFG, almenning eða áhorfendur að kappleikjum. Vinnuhópurinn hefur jafnframt lagt á það áherslu við þessa hönnun að gestir sem og notendur fái það á tilfinninguna að í Grindavík sé ein íþróttamiðstöð með eitt UMFG-HJARTA og þessi hönnun muni þjappa samfélaginu saman og sérstaklega íþróttasamfélaginu þar sem allir fái notið sín.
Sameiginleg félagsaðstaða UMFG. Eitt af því sem stendur starfi íþróttahreyfingarinnar í Grindavík fyrir þrifum er aðstöðuleysi fyrir hið almenna félagsstarf og skrifstofuhúsnæði. Með þessari hönnun er gert ráð fyrir nýrri sameiginlegri félagsaðstöðu fyrir allar deildir UMFG (liðir nr. 4 og 5 í rýmisáætlun). Staðsetning á henni er þannig fyrir komið að félagsmenn og iðkendur allra deilda munu eiga greiðan aðgang að henni. Gert er ráð fyrir sal upp á 270 m2 sem hægt er að skipta í þrennt og jafnframt 30 m2 móttökueldhúsi. Með þessum sal skapast miklir möguleikar t.d. í tengslum við kappleiki bæði í knattspyrnu og körfuknattleik eða hverju öðru mótahaldi sem fram fer í íþróttamiðstöðinni eða á íþróttasvæðinu. Þessi stærð af sal býður líka upp á möguleika fyrir smærri samkomur t.d. herra-eða konukvöld. Gert er ráð fyrir 111 m2 í skrifstofur og fundarherbergi. Þrjár skrifstofur hugsaðar fyrir knattspyrnudeild, aðalstjórn og Kvenfélag Grindavíkur og ein sameiginleg skrifstofa fyrir aðrar deildir ásamt fundarherbergi. Með tilkomu þessa rýmis má segja að möguleikar allra deilda til að efla félagsstarf sitt aukist til muna.
Suðurhlið. Þetta rými býður upp á mikla möguleika.
Núverandi sundlaugarsvæði.
Með því að stækka íþróttahúsið um 1/3 eða 450 fm2 og nýta hluta af núverandi búningsklefum íþróttahúss undir m.a. geymslurými er leikur einn að breyta íþróttahúsinu í veislusal fyrir þennan fjölda. (liður 1 og 9.2 í rýmisáætlun).
Að körfuknattleiksvöllur verði löglegur. Núverandi körfuknattleiksvöllur er ekki löglegur fyrir alþjóðaleiki og nálægð endalína við útveggi er mikil þannig að töluverð slysahætta er fyrir hendi þegar leikir fara fram á vellinum eins og hann er í dag. Eina leiðin til að laga þetta er að stækka íþróttahúsið og fara í fulla stærð á því og stækka um 450 fm2 (liður nr. 1 í rýmisáætlun). Samhliða þessari stækkun þarf að færa völlinn. Ekki þarf að taka upp allt gólfið líkt og getið var um í áfangaskýrslunni en laga þarf allar merkingar, færa körfur o.fl.