Grindvíkingar hafa fengið góðan liðsauka því Ryan Pettinella mun leika með liðinu út tímabilið eins og lesa má um hér. Það vekur athygli að Grindvíkingar þurfa ekki að greiða krónu fyrir þjónustu Pettinella en nýverið kom fjársterkur aðili að máli við körfuknattleiksdeildina og bauðst til þess að bjóða Grindvíkingum leikmanninn að kostnaðarlausu. Grindvíkingar eru nú þegar líklega með sterkasta lið deildarinnar og segir Helgi Jónas Guðfinnsson, þjálfari Grindavíkur, að koma Pettinella hafi verið óvænt.
„Þetta kom óvænt upp, við vorum ekki að leita okkur af liðsstyrk því það er ekki eins og liðið hafi verið að spila illa. Við fórum vel yfir þetta og ræddum þetta vel innan liðsins. Strákarnir tóku vel í það að fá hann aftur,” segir Helgi Jónas í viðtali við Víkurfréttir.
Grindvíkingar eru með fjögurra stiga forystu á toppi Iceland Express deildarinnar og eru gríðarlega vel mannaðir. Liðið datt út úr Powerade-bikarnum fyrir skömmu eftir tap gegn KR en liðið ætlar sér Íslandsmeistaratitilinn. Koma Pettinella getur varla skaðað þann málsstað. Helgi segist þó skilja að hann fái gagnrýni fyrir að bæta við þriðja erlenda leikmanninum.
„Ég skil það vel en hvaða þjálfari í minni stöðu hefði hafnað þessu tilboði? Hann stóð sig framar björtustu vonum á síðustu leiktíð. Hann hefur ekki spilað körfubolta í vetur en ég veit að hann er búinn að vera í ræktinni. Það kemur svo í ljós í hversu góðu formi hann er í,” sagði Helgi í samtali við Víkurfréttir.
Pettinella var með 14,6 stig að meðaltali í leik á síðustu leiktíð í Iceland Express deildinni og tók 11,3 fráköst. Hann er afar þrekvaxinn eins og sjá má á myndum sem fylgja fréttinni. Hann mun vafalaust hjálpa liðinu í varnarleiknum og er einnig afar drjúgur undir körfunni í sóknarleiknum.