,,Ég er virkilega ósáttur með þessa ákvörðun, sérstaklega þar sem Jónas formaður sagði alltaf að hann kæmi ekki í veg fyrir að ég fari út í atvinnumennsku,” sagði Alexander Magnússon bakvörður Grindavíkur við Fótbolta.net í gærkvöld en ekkert verður úr því að hann fari á reynslu hjá norska liðinu Sogndal því Grindavík hefur bannað honum að fara út.
Alexander átti að fljúga til Noregs í fyrramálið til að hefja æfingar með norska liðinu og vera þar í nokkra daga á æfingamóti. Nú er ljóst að ekkert verður úr því vegna þess að Grindavík vill ekki að hann fari.
,,Ég fékk bara upplýsingar um það í hádeginu í dag að ég væri ekkert að fara út þegar formaðurinn hringdi í mig,” sagði Alexander við Fótbolta.net í kvöld.
,,Ég var kominn með flugmiðana og allt en á seinustu stundu heyrði ég þetta, að ég væri ekki á leiðinni út, sem ég skil ekki alveg. Hann sagði að ég væri lykilmaður og að ég færi ekki neitt. Þetta er leiðinlegt gagnvart mér.”
,,Ég held að það hafi verið fundur hjá Grindavík og stjórn og þjálfari hafi komist að samkomulagi um að ég færi ekkert út. Ég held að þetta sé eina félagið á Íslandi sem myndi ekki leyfa þetta.”
Umboðsskrifstofan Total Football hefur verið að vinna fyrir Alexander og beitti sér í málinu en allt kom fyrir ekki, hann fer ekki út.
,,Þeir töluðu við Guðjón (Þórðarson þjálfara Grindavíkur) í dag og eftir það fékk ég þá staðfestingu frá þeim að þetta væri alveg útilokað og ég gæti ekkert gert. Þetta er frekar lélegt.
Sogndal vildi fá Alexander út til að æfa og spila með liðinu, sýna honum aðstæður og til að geta skoðað hann en Grindvíkingar vilja ekki láta hann nema fast tilboð komi í leikmanninn fyrst og þar við situr.
,,Mér skildist á Jónasi (Þórhallssyni formanni) þegar ég talaði við hann í dag að ég ætti ekki að fara á reynslu, ef menn vildu fá mig þá yrðu þeir bara að kaupa mig.”
Alexander vakti athygli fyrir góða frammistöðu með Grindvíkingum á síðasta tímabili en hann var í lykilhlutverki hjá liðinu. Hann er uppalinn hjá Njarðvík en hann hefur leikið með Grindvíkingum undanfarin tvö ár.
Sogndal rétt bjargaði sér frá falli í Noregi í haust en liðið endaði í fjórtánda sæti í úrvalsdeildinni og sigraði Sandefjord kjölfarið í umspilsleikjum um sæti á meðal þeirra bestu.
Frétt: Fotbolti.net