Ray Anthony Jónsson, bakvörður Grindvikinga, hefur verið valinn í landsliðshóp Filippseyja sem mætir bandarísku meisurunum í Los Angeles Galaxy þann 3. desember næstkomandi. Ray Anthony á að fara til Filippseyja næstkomandi þriðjudag en ekki er ljóst hvort að hann muni fara þar sem kona hans er ólétt.
,,Þetta fer eftir því hvort hún verði búinn að eiga eða ekki. Þetta ræðst um helgina, ef konan nær ekki að fæða fyrir helgi þá fer ég ekki,” sagði Ray við Fótbolta.net í dag.
,,Hún er skráð á mánudaginn og ég vona að barnið komi aðeins fyrr í heiminn. Ég er samt ekki að fórna neinu, mér finnst skemmtilegra að taka á móti barninu mínu heldur en að spila.”
Get sagt að ég hafi spilað á móti Beckham:
LA Galaxy ætlar að mæta með sína bestu menn í leikinn gegn Filippseyjum en David Beckham, Landon Donovan og Robbie Keane eiga til að mynda að spila.
,,Þeir eru að spila við okkur upp á auglýsinguna, styrkja landsliðið til að fleiri fái áhuga á liðinu,” sagði Ray sem er spenntur fyrir leiknum.
,,Það er draumur hvers fótboltamanns að spila fyrir landsliðið og að spila við svona stóra kalla er bónus út af fyrir sig þó að þetta sé bara æfingaleikur. Ég get allavega sagt að ég hafi spilað á móti Beckham ef ég fer og spila.”
Ray Anthony var fyrst valinn í landslið Filippseyja í fyrra en móðir hans er þaðan. Ray tók í kjölfarið þátt í nokkrum verkefnum með Filippseyjum síðastliðinn vetur.
Í sumar spilaði hann síðan með liðinu gegn Kúveit í undankeppni HM 2014 en Filippseyjar töpuðu 4-2 samanlagt þar og eru því úr leik. Hins vegar er nóg af verkefnum framundan hjá liðinu í byrjun næsta árs en óvíst er hvort Ray geti tekið þátt í þeim öllum.
,,Við förum til Tyrklands í tíu daga og síðan förum við til Dubai eftir það. Eftir það spilum við síðan í keppninni sem við fórum áfram í á síðasta ári en hún fer fram í mars. Við erum á fullu að æfa hér heima þannig að það er spurning hvort maður komist á allar æfingar, kannski skreppur maður í nokkra daga og kemur síðan aftur heim.”
Hef staðið mig betur úti en heima:
Hinn 32 ára gamli Ray átti ekki alltaf fast sæti í liði Grindavíkur í sumar en hann fékk meðal annars tvo í einkunn í Fréttablaðinu fyrir frammistöðu sína í 7-2 tapi gegn FH.
,,Ég hef staðið mig aðeins betur þarna úti heldur en heima,” sagði Ray léttur í bragði.
,,Ég veit ekki af hverju það er. Í sumar var allt á móti manni og reyndar liðinu líka. Síðan fer maður út og þá er eins og sjálfstraustið sé aðeins betra. Maður verður að standa sig þarna, annars bíða menn í röðum eftir að komast í stöðuna.”