Strákarnir lágu gegn Haukum á Ásvöllum

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Grindvíkingar náðu ekki að fylgja eftir góðum sigurleik gegn Þórsurum í síðustu umferð en liðið tapaði á útivelli gegn Haukum á sunnudaginn, 90-78. Haukar eru því áfram á toppi deildarinnar en Grindavík situr í 7. sæti.

Karfan.is fjallaði um leikinn:

Hafnfirðingar halda sig á toppi Dominos deildar karla eftir gríðarlega góðan sigur á Grindavík. Leikurinn var kaflaskiptur en Haukar voru við bístjórasætið meirihluta leiksins en Grindavík gerði sitt besta til að þjarma almennilega að Haukum.

Gangur leiksins:

Grindavík fór betur af stað og stjórnuðu leiknum í upphafi. Góður annar leikhluti kom Haukum yfir er liðin héldu til hálfleiks 42-39.

Haukar voru mun sterkari í byrjun seinni hálfleiks og komust í fína forystu þar. Grindavík má eiga að þeira gáfust aldrei upp í leiknum en liðið komst hægt og rólega aftur inn í leikinn.

Þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum minnkaði Grindavík muninn niður í eitt stig. Þá mætti Kári Jónsson til leiks og tók hann yfir. Haukar náðu í góða forystu í lokin en tæknivilla á Sigurð Þorsteinsson fór með leikinn en eftir það var munurinn tíu stig. Lokastaðan 90-78 fyrir Hauka sem halda toppsætinu áfram.

Hetjan:

Kári Jónsson fær þennan titil skuldlaust í kvöld. Stjórnaði liði Hauka eins og herforingi í leiknum. Opnaði fyrir aðra leikmenn, stjónaði sóknarleiknum og var með allskonar tilþrif. Kári hitti ekki vel fyrir utan þriggja stiga línuna í leiknum en endaði samt sem áður með 30 stig í leiknum. Við það bætti hann fimm fráköstum og sex stoðsendingum. Breki Gylfason var einnig mjög drjúgur í leiknum og endaði með 16 stig.

Kjarninn:

Haukar halda sér enn á toppi deildarinnar. Einnig tókst liðinu með 12 stiga sigri að ná sigri í innbyrgðisviðureignum liðanna sem gæti reynst mikilvægt. Haukar voru ansi sannfærandi gegn sterku liði Grindavíkur. Liðið stjórnaði hraðanum og sýndi enga örvæntingu í áhlaupum gestanna. Kári Jónsson var algjörlega magnaður í þessum leik og leiðtogahæfileikar hans eru að skína í gegn þessa dagana sem Haukum vantaði greinilega.

Grindavík átti ágætis dag, gestirnir virtust nokkuð einbeittir framan af leik og nýttu sér styrkleikana vel. Liðið missti hinsvegar algjörlega hausinn í lokin þegar nokkrir dómar féllu ekki með liðinu. Tilfinningin er sú að Grindavík séu á réttri leið, liðið er enn að ná vopnum sínum og stilla saman strengi sína. Staðan er samt sem áður sú að liðið er komið sex stigum á eftir toppsætunum sem gæti reynst dýrt.

Hrósa þarf Haukum fyrir að halda haus í þessum leik þrátt fyrir að stórt verkefni sé framundan í undanúrslitum Maltbikarsins. Grindavík aftur á móti fær 11 daga pásu núna en næsti leikur er gegn nágrönnum þeirra í Keflavík.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Ólafur Þór)

Viðtal við Jóhann Þór eftir leik