Grindavík vann góðan sigur á Ármann í 1. deild kvenna á laugardaginn, en leiknum lauk með rúmlega 30 stiga sigri Grindavíkur, lokatölur 73-42. Spilandi þjálfari Grindavíkur, Angela Rodriguez, lék ekki með Grindavík en það kom lítið að sök að þessu sinni. Nýjasti leikmaður Grindavíkur, Anna Ingunn Svansdóttir, var stigahæst Grindvíkinga með 24 stig og þá skilaði Embla enn einni þrennunni, 11 stig, 13 fráköst og 10 stoðsendingar. Hún bætti svo við 4 stolnum boltum og endaði með 30 framlagspunkta, en lið Ármanns var með 37 í heildina.
Eftir þennan leik leiðir Embla Kristínardóttir deildina í stigum (23,3 í leik) og stoðsendingum (5,3) og er að taka næst flest fráköst í leik, eða 13,3 en Grindvíkingurinn Helga Rut Hallgrímsdóttir sem leikur með Þór á Akureyri er með 13,8 í leik. Þá er Embla einnig langhæst þegar kemur að framlagi leikmanna þar sem af er veturs, með 28,9 í leik, en næst er áðurnefnd Helga Rut með 21,5 í leik.