Andri Rúnar að öllum líkindum á förum frá Grindavík

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Knattspyrna

Andri Rúnar Bjarnason, markahæsti leikmaður Pepsi-deildarinnar og besti leikmaður hennar sem og Grindavíkur, er að öllum líkindum á leið í atvinnumennsku erlendis. Samningur hans við Grindavík er útrunninn og sagði Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur, að hann reiknaði ekki með öðru en að Andri myndi reyna fyrir sér á erlendri grundu.

„Ég reikna með því að hann sé á förum,” sagði Óli Stefán í samtali við Fótbolta.net í gær.

„Ég vona, fyrir hans hönd, að hann fari erlendis. Hann hefur unnið vel fyrir því og þetta tækifæri kemur örugglega ekki aftur hjá honum. Ég vona að hann nýti það.”

„Annars tökum við gott spjall ef að það gengur ekki upp hjá honum, klárlega.”

Andri skoraði 19 mörk í sumar og var eins og áður sagði markahæsti leikmaður deildinnar og valinn besti leikmaður hennar af leikmönnum.

 

Mynd: Fótbolti.net – Benóný Þórhallsson