Nú þegar körfuboltaveturinn er farinn af stað og fyrsti heimaleikurinn er rétt handað við hornið, þá er um að gera að huga að því að tryggja sér besta sæti í vetur, með því að kaupa árskort á völlinn. Grindavík tekur á móti Þór Þorlákshöfn á morgun og verður hitað rækilega upp fyrir leik með borgurum, skrafi, spjalli og öllu tilheyrandi. Ekki láta þig vanta!
Skilaboð frá deildinni:
Sælir Grindvíkingar. Hvað er títt? Karfan er komin af stað og það með látum. Kvennalið okkar sem nú er í fyrsta áfanga í uppbyggingarfasa til framtíðar skellti sér í Kennaraháskólann og atti þar kappi við Kvennalið Ármanns. Það er skemmst frá því að segja að okkar stúlkur flysjuðu andstæðinga sína all-hressilega og tóku þessi tvö stig sem í boði voru heim í hérað. Vel gert og góð byrjun á áhugaverðum vetri hjá þeim. Eins og kunnugt er féllu þær úr úrvalsdeildinni á síðasta tímabili en í því eru alltaf tækifæri og þau verða nýtt. Liðið okkar er kornungt, stútfullt af hæfileikum og með blóð á tönnunum sem mun skila mörgum sigrum í hús þennan veturinn. Á þessa leiki ætlum við einmitt að mæta og standa við bakið á þeim í vetur.
Karlaliðið leggur svo af stað á morgun í þeirra vegferð í Dominos deildinni þegar að nágrannar okkar úr Þorlákshöfn mæta í Mustad-höllina. Það er svo fyndið en svona byrjaði tímabilið í fyrra líka og ekki nóg með það heldur er næsti leikur hér heima gegn Haukum, alveg eins og í fyrra. En förum ekki út í það! Leikurinn á morgun er kl 20:00 sem er kannski ekki alveg besta tímasetningin því eins og við vitum er íslenska karla landsliðið að spila við Tyrki en sá leikur byrjar kl 18:45. Og hvað gerum við þá? Jú, við mætum rúmlega 18:00 í Gjánna þar sem hinir framúrskarandi eðal-grillarar á vegum Körfuknattleiksdeildarinnar munu taka á móti fólki með 140gr kvikindum sem verða eldaðir af alúð. Hægt að horfa á landsleikinn, nærast, spjalla, skrafa og plana. Það verður ekki betra.
Við verðum með öll kort sem í boði eru þetta tímabilið í sölu fyrir þennan leik.
Karlaliðinu er spáð 3. sæti þetta tímabilið en við viljum meira en það. En þú?
Hlökkum til að eyða vetrinum með ykkur í að tarfast og berjast í þessu öllu.
Áfram Grindavík!