Nýliðar Grindavíkur tryggðu veru sína í Pepsi-deild kvenna að ári þegar þær sóttu stig í Hafnarfjörðinni í gær. Leiknum lauk með markalausu jafntefli þar sem markvörður Grindavíkur, Viviane Domingues, fékk heldur betur að vinna fyrir kaupinu sínu. Á sama tíma tapaði Fylkir fyrir KR og þegar tvær umferðir eru eftir af mótinu er því ljóst að Fylkir fylgir Haukum niður í 1. deild að ári.
Fótbolti.net fylgdist með gangi mála í leiknum og tók Róbert þjálfara tali að honum loknum. Hin brasilíska Thaisa kom inná um miðjan síðari hálfleik og sagði Róbert það mikið gleðiefni, bæði fyrir hana sjálfa og alla leikmenn liðsins, en hún virðist hafa ótrúlega jákvæð áhrif á aðra leikmenn á vellinum. Thaisa hefur verið að glíma við erfið meiðsli í sumar og aðeins náð að spila 5 leiki með liðinu.
Róbert greindi frá því í viðtalinu að erlendu leikmenn liðsins séu mjög ánægðir með lífið á Íslandi og vilji allar spila áfram með Grindavík að ári. Það eru því greinilega spennandi tímar framundan í grindvískri kvennaknattspyrnu.