Meiðslalistinn hjá Grindavík í lengra lagi

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Knattspyrna

Þrátt fyrir gott gengi hjá Grindavík í Pepsi-deild karla í sumar hefur sjúkralistinn verið langur og útlit er fyrir að a.m.k. tveir leikmenn losni ekki af honum áður en tímabilið er á enda. Hákon Ívar Ólafsson meiddist illa á hné í síðasta leik og verður frá í þrjá mánuði. Svipaða sögu er að segja af Spánverjanum Rodrigo Gomes Mateo sem hefur ekkert komið við sögu í sumar og er nú í endurhæfingu á Spáni, en hann verður frá í að minnsta kosti 2 mánuði enn.

Landi hans frá Spáni Juanma Ortiz verður frá í að minnsta kosti nokkrar vikur enn og þá eru allir þrír markmenn Grindavíkur að glíma við meiðsli, þó mis alvarleg, og hafa allir verið fjarri góðu gamni á æfingum í vikunni.

Þá eru framherjarnir Andri Rúnar Bjarnason og William Daniels báðir tæpir fyrir leikinn gegn KA á sunnudag og þeir Björn Berg Bryde verða báðir í banni í þeim leik. Þjálfari Grindavíkur, Óli Stefán Flóventsson, á því ærið verkefni fyrir höndum að púsla saman 11 manna liði fyrir þann leik, en þó er útlit fyrir að Milos Zeravica snúi til baka, en hann gat ekki leikið með liðinu gegn Breiðabliki.

Óli Stefán staðfesti í samtali við Fótbolta.net að hann leitaði nú logandi ljósi að liðstyrk, en félagaskiptaglugginn opnar þann 15. júlí. Það væri þó ekkert fast í hendi enn.