Grindavík sækir Kópavoginn heim í kvöld

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Knattspyrna

Grindavík sækir Breiðablik heim í Kópavoginn í kvöld, en með sigri getur liðið jafnað Valsmenn að stigum á toppi deildarinnar. Það er því mikið í húfi í kvöld og mun Stinningskaldi bjóða uppá rútuferð á leikinn frá Bryggjunni kl. 17:30. Takmarkaður sætafjöldi í boði og er skráning í rútuna hjá Gunnari Má í síma 865-2900. Óli Stefán mun fara með rútunni og halda töflufund fyrir stuðningsmenn á leiðinni.

Óli Stefán kallar eftir góðum stuðningi í kvöld og ritaði eftirfarandi pistil á Facebook-síðu Stinningskalda í gær:

Ágætu félagar.

Á morgun er leikur við Breiðablik á Kópavogsvelli kl 20.00. Um er að ræða síðasta leik 9. umferðar og staðan er einföld, með sigri getum við komist á topp deildarinnar.

Við höfum orðið varir við nokkuð góðan stuðning ykkar í síðustu leikjum sem við að sjálfsögðu erum himinlifandi með.
Ég ætla nú bara að gerast svo frakkur að biðja um ennþá meiri stuðning á morgun. Ég vill að allir þið sem ætlið að fara reynið að taka einhvern einn með ykkur á völlinn þannig að við verðum örlítið fleiri en vanalega.

Annað sem ég varð var við á móti KR á dögunum var að þið sem þangað mættuð sátuð þétt saman og ansi margir voru gulir eða bláir. Þannig urðum við varir við ykkur og þannig virkar stuðningurinn enn meiri. Ég væri því til í að sjá alla þá sem ætla á völlinn á morgun að mæta í einkennislitum félagsins. Þarf ekki að vera meira en derhúfa eða trefill.

Stinningskaldi er með 16 manna rútu á leikinn á morgun sem er nú þegar hálffull. Ég ætla að fara með rútinni á leikinn og setja upp töflufund fyrir þá sem fara með. Leikurinn verður sýndur í sjónvarpinu en ég kalla eftir því að fólkið okkar mæti á völlinn. Ég sé það fyrir mér að á Kópavogsvelli sýnum við í beinni hvernig Stinningskaldi virkar á okkar besta degi !!

Sjáumst á vellinum.
Þjálfari meistaraflokks karla.
Óli Stefán Flóventsson