Grindvíkingar halda áfram að gera það gott í Pepsi-deild karla í knattspyrnu en í gær lögðu þeir ÍBV hér í Grindavík, 3-1. Það má segja að heimamenn hafi klárað leikinn í fyrri hálfleik en staðan var 3-0 í hálfleik. Andri Rúnar Bjarnason opnaði markareikning sinn strax á 4. mínútu og bætti svo við öðru marki fyrir hálfleik, en Sam Hewson setti eitt þar á milli.
Í seinni hálfleik slökuðu okkar menn á klónni en gáfu þó fá færi á sér. ÍBV klóruðu í bakkann á 60. mínútu, staðan 3-1 og urðu það lokatölur leiksins.
Eftir leikinn er Grindavík í 2. sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir toppliði Vals, og Andri Rúnar er markahæsti maður deildinnar, með 9 mörk eftir 8 leiki.