Lalli leggur skóna á hilluna

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Þau tíðindi bárust nú í hádeginu að Þorleifur Ólafsson, eða Lalli eins og við þekkjum hann flest, hafi ákveðið að leggja skóna góðu á hilluna. Lalli á langan og farsælan feril að baki með Grindavík en hann lék sinn fyrsta leik með meistaraflokki tímabilið 2000-2001. Lalli lyfti tveimur Íslandsmeistaratitlum á loft sem fyrirliði Grindavíkur og tvisvar stóð Grindavík uppi sem bikarmeistari með Lalla innanborðs.

Við hér hjá Grindavik.is þökkum Lalla fyrir hans framlag til körfuboltans í Grindavík undanfarin ár og óskum honum velfarnaðar í hverju því sem hann tekur sér nú fyrir hendur. #TakkLalli!

Umfjöllun karfan.is um stórtíðindi dagsins:

X-mennið Þorleifur Ólafsson er hættur, skórnir eru komnir upp á hillu en þetta staðfesti Þorleifur við Karfan.is í dag. Þarna fer einn af skemmtikröftum síðustu ára en frægðarsól hans skein hvað hæst þegar Grindavík varð Íslandsmeistari 2012 og 2013 þar sem Þorleifur hlotnaðist sá heiður að senda Íslandsmeistaratitilinn á loft sem fyrirliði Grindvíkinga.

X-man viðurnefnið eða X-faktor er eitthvað sem hefur lengi loðað við Þorleif en hæfileiki hans til að sprengja upp leiki og bera heilt lið á herðum sér í gegnum erfiða kafla hefur jafnan vakið mikla athygli á ferli hans.

Í snörpu samtali við Þorleif reyndum við að toga upp úr honum hvort hann ætlaði sér á tréverkið með Jóhanni bróður sínum og sagði hann ekki loku fyrir það skotið en þó ekkert staðfest í þeim efnum. Þorleifur sem byrjaði um 16 ára aldur að æfa með meistaraflokki Grindavíkur hefur síðustu ár glímt við erfið meiðsli sem eru m.a. undirstaðan í ákvörðun hans um að hætta.

„Upp á síðkastið hefur verið erfiðara og erfiðara að vinna á þessu og maður hefur verið lengi að jafna sig, ég finn t.d. enn fyrir úrslitakeppninni,” sagði Þorleifur sem fór með Grindavík alla leið í oddaleik gegn KR.

Nánar er rætt við Þorleif í ítarlegu viðtali hér á Karfan.is sem birtist von bráðar.

Þorleifur Íslandsmeistari með Grindavík
2011-2012: Grindavík
2012-2013: Grindavík

Þorleifur bikarmeistari með Grindavík
2013-2014: Grindavík
2005-2006: Grindavík

 

Nokkrar myndir af Lalla úr myndasafni Grindavik.is (og einhverjar eru sennilega frá karfan.is):