Eftir magnaða endurkomu úr stöðunni 0-2 og eitt magnaðasta öskubuskuævintýri í úrslitakeppni karla hin seinni ár varð lokaniðurstaðan fremur snautlegt tap gegn KR síðastliðinn sunnudag. Grindavík er því næst besta lið Íslands þetta árið og mega strákarnir og Grindvíkingar allir sáttir við una. Liðið sýndi það og sannaði í þessari úrslitakeppni að Grindavíkurhjartað í þessum strákum er stórt og þeir geta unnið hvaða lið sem er, þar af KR tvisvar.
Þegar litið er um öxl áttu sennilega ekki margir von á því að Grindavík yrði liðið sem færi með KR í 5 leikja seríu í vor. Margir spáðu liðinu fallbaráttu en lokaniðurstaðan varð 4. sætið í deildinni, 4-liða úrslit í bikarnum og að lokum 2. sætið í Íslandsmótinu. Það þurftu ansi margir spekingar að éta sokk í vetur.
Það þýðir lítið að svekkja sig á síðasta leiknum, alveg eins og það þýðir lítið að svekkja sig á sigurkörfu KR í leik tvö. Þegar allt kemur til alls er þessi árangur frábær, strákarnir í liðinu eiga stórt hrós skilið, sem og auðvitað Jóhann Þór Ólafsson þjálfari, allir þeir sem koma að starfinu og skipulagi og ekki síst stuðningsmenn Grindavíkur sem studdu vel við bakið á liðinu í þessari úrslitakeppni.
Nú horfum við fram á veginn og byggjum ofan á þennan frábæra árangur á næsta ári. Áfram gakk og áfram Grindavík!