KR lagðir að velli í Vesturbænum!

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Grindavík hélt draumnum um Íslandsmeistaratitilinn á lífi í kvöld með glæsilegum sigri á KR á útivelli, 86-91. Mörg lið hefðu sennilega lagt árar í bát eftir jafn grátlegt tap og Grindvíkingar upplifðu í síðasta leik, en þeir létu mótlætið ekki buga sig og mættu dýrvitlausir til leiks í kvöld. 

Grindvíkingar fóru vel af stað í leiknum og voru til alls líklegir frá fyrstu mínútu. KR-ingar voru e.t.v. full sigurvissir og stressuðu sig lítið á því að spila vörn. Staðan í hálfleik var 47-51 en það var fyrst og fremst frábær 3. leikhluti sem skóp sigur Grindavíkur. Mestur varð munurinn 18 stig Grindavík í vil en lið með Jón Arnór Stefánsson innanborðs er alltaf líklegt til að koma með áhlaup sem þeir og gerðu.

Síðustu mínútur leiksins minntu um margt á lokamínútur síðasta leiks, en öfugt við hann þá héldu Grindvíkingar haus að þessu sinni, spiluðu sinn leik sóknarmegin og héldu KR í skefjum varnarmegin. Glæsilegur sigur því staðreynd hjá Grindavík, sem fær nú leik fjögur í Grindavík á fimmtudaginn og má reikna með að þakið fari langleiðina með að rifna af húsinu.

Lewis Clinch (21/8/11) og Ólafur Ólafsson (25/9/3) voru að öðrum ólöstuðum bestu menn Grindavíkur í kvöld, en eins og svo oft áður í þessari úrslitakeppni var þetta fyrst og fremst sigur liðsheildarinnar þar sem allir leikmenn börðust eins og ljón og lögðu ómetanlegt framlag í púkkið á báðum endum vallarins.

Tölfræði leiksins

Viðtal við Jóhann eftir leik

Viðtal við Dag eftir leik