Rán um hábjartan dag í Grindavík

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Grindavík er komið í erfiða stöðu eftir grátlegt tap gegn KR á heimavelli í kvöld en KR kláraði leikinn með þristi þegar 5 sekúndur voru til leiksloka, lokatölur 88-89.

Karfan.is og Grindavik.is voru í samstarfi í kvöld og var fréttaritari síðunnar á leiknum:

Grindavík og KR mættust í kvöld í öðrum leik liðanna í úrslitum Domino’s deildarinnar. KR vann fyrsta leikinn með fáheyrðum yfirburðum en Grindvíkingar virtust vera búnir að gleyma öllu um þann leik og hófu leikinn af miklum krafti og virtust ætla að keyra KR-inga í kaf. Staðan var orðin 12-4 eftir tæpar 4 mínútur og Finnur bað um leikhlé. Það dró þó ekkert úr Grindvíkingum sem hentu í tvo stóra þrista, annar þeirra spjaldið ofan í og staðan 18-4! Ótrúleg byrjun á leiknum sem átti þó eftir að jafnast út og verða æsispennandi fram á síðustu sekúndur, en KR vann leikinn á semi flautukörfu (5 sekúndur eftir) frá Philip Alawoya.

Kjarninn

Grindavík sýndi sitt rétta andlit í kvöld og spiluðu eins og þeir höfðu spilað í 8- og 4-liða úrslitum, á fullu gasi allan tíma og gáfu aldrei þumlung eftir, hvorki í vörn né sókn. Þannig verður Grindavík að spila ef þeir ætla að eiga möguleika í KR og því óneitanlega virkilega grátlegt fyrir Grindavík að leggja hjarta og sál í þennan leik en tapa honum samt.

KR sýndi líka í kvöld hversu brjálæðislega vel mannað liðið er og hversu mikil reynsla býr í því. Jón Arnór tók leikinn hreinlega yfir í lokin og Acox átti hressilega innkomu með 13 fráköst og 9 stig á tæpum 19 mínútum og réðu Grindvíkingar lítið við hann í kringum körfuna, þar sem hann mætti reynar klára færin sín betur.

Lokamínúturnar

Grindvíkingar voru með leikinn í höndum sér allt fram að síðustu sókn KR-inga. Þeir voru 6 stigum yfir þegar 1:30 voru eftir og 4 stigum yfir þegar mínúta var til leiksloka. En þá klikkaði allt hjá heimamönnum sem klikkað gat. Lewis Clinch sem hafði spilað eins og engill átti slæma sendingu sem endaði í hraðaupphlaupi KR-inga í stöðunni 88-86 og 15 sekúndur eftir. Grindavík lokaði á allar skyttur KR og boltinn endaði á Alawoya sem tók sitt annað þriggjastigaskot í viðureigninni. Boltinn skoppaði á hringnum og endaði svo ofan í og 5 sekúndur eftir.

Jóhann tók leikhlé en hann hafði sett upp nokkrar fallegar fléttur fyrir Grindvíkinga eftir leikhlé í leiknum. Sú varð ekki raunin að þessu sinni og leikurinn endaði á erfiðu tveggjastiga skoti frá Lewis og sigur KR staðreynd í ótrúlegum leik.

Tölfræðin lýgur ekki

Það var ekki að sjá á Grindvíkingum að þeir væru að skjóta á körfur sem þeir ættu að þekkja eins og handabakið á sér í vítum en þeir klikkuðu úr 8 vítum í 22 tilraunum. Það er rándýrt í leik sem tapast með 1 stigi.

Hetjan

Lewis Clinch hefði átt þennan titil skuldlaust ef sigurinn hefði dottið Grindavíkurmegin, en hann átti tvær afleitar sóknir í lokin og fyrirgerði þannig tilkalli sínum til hetjunafnbótarinnar. Tveir KR-ingar skipta því hetjunni á milli sín. Jón Arnór Stefánsson sem hélt KR inn í leiknum með hverri körfunni á fætur annarri, oft úr erfiðum færum því áðurnefndur Lewis spilaði mjög góða vörn á hann allan leikinn, og Kristófer Acox, sem kom eins og stormsveipur inn í leikinn. Ekki amalegt fyrir KR að fá mann eins og hann inn í liðið á lokasprettinum.

Ekki hetja dagsins

Pavel Ermolinskij átti einn sinn allra versta leik í háa herrans tíð. Hann setti aðeins eina körfu utan af velli í 9 tilraunum, þar af 7 fyrir utan þriggja, tapaði boltanum 7 sinnum, þar af tvisvar með mjög klaufalegum skrefum og skilaði -6 framlagspunktum og var -27 í +/- boxinu. Það segir kannski ýmislegt um styrkleika KR liðsins að þeir nái að landa sigri þrátt fyrir að Pavel hafi ekki mætt til leiks í kvöld.

Hvað næst?

KR er því komið í algjöra lykilstöðu í einvíginu og Grindavík þarf að vinna þrjá leiki í röð. Leikmenn liðsins voru ótrúlega svekktir í leikslok og sást manndrápsglampi í augum sumra. Nú þurfa þeir að hreinsa hausinn aftur og mæta dýrvitlausir í DHL höllina í næsta leik. Annars er voðinn vís og titillinn KR-inga.

Tölfræði leiksins

Myndasafn úr leiknum

Umfjöllun Siggeir F. Ævarsson
Myndir SbS

Viðtal við Ólaf Ólafsson eftir leik:

Viðtal við Dag Kár Jónsson eftir leik: