Grindavík er komið í lykilstöðu í einvíginu gegn Stjörnunni í 4-liða úrslitum Domino’s deildar karla eftir frábæran 94-84 sigur í Mustad-höllinni í gær. Grindvíkingar leiddu leikinn nánast frá fyrstu mínútu en 19-2 áhlaup um miðjan annan leikhluta innsiglaði í raun restina af leiknum og Stjarnan komst aldrei nær en 6 stig eftir það. Frábær leikur hjá okkar mönnum og verður áhugavert að sjá hvort kústar fari á loft í Garðabæ á laugardaginn.
Karfan.is fjallaði um leikinn af sinni alkunnu snilld:
Grindvíkingar stilla Stjörnunni upp við vegg
Grindvíkingar tóku í kvöld á móti Stjörnumönnum í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Domino’s deildar karla. Grindvíkingar unnu stórsigur gegn afleitum Stjörnumönnum í fyrsta leik og því var fróðlegt að sjá hvort Stjörnumenn næðu að finna taktinn, eða hvort Grindvíkingar héldu uppteknum hætti og kæmu sér einum leik frá úrslitaeinvíginu. Leikurinn var jafn til að byrja með, eða fyrstu 13 mínútur leiksins. Þá tóku Grindvíkingar 19-2 áhlaup og breyttu stöðunni í 43-25. Eftir það varð róðurinn afar þungur fyrir gestina og leiddu heimamenn í hálfleik 54-36. Stjörnumenn reyndu hvað þeir gátu til að klóra í bakkann í seinni hálfleik, en í hvert skipti sem gestirnir gerðu sig líklega til að saxa á forskot Grindvíkinga svöruðu heimamenn með þristi eða körfu. Að lokum vann Grindavík tíu stiga sigur, 94-84, og eru nú aðeins leik frá úrslitaeinvígi Domino’s deildarinnar.
Lykillinn
Fyrrnefnt 19-2 áhlaup heimamanna vó afar þungt í leiknum, en Stjörnumenn náðu aldrei að grafa sig upp úr þeirri holu. Á því tímabili virtust heimamenn einfaldlega hitta úr öllu, en í hálfleik voru Grindvíkingar með yfir 50% nýtingu úr þristum, meðan Garðbæingar voru 1/10 af sama færi.
Hetjan
Hetjunafnbótina fær liðsheild Grindavíkur. Eins og áður sagði slökktu heimamenn í öllum áhlaupum gestanna þegar líða tók á leikinn, og fengu þeir þrista úr öllum áttum. Til dæmis skoraði Þorsteinn Finnbogason risastóran þrist þegar Stjörnumenn höfðu minnkað muninn niður í sex stig, 85-79, þegar rúmar þrjár mínútur lifðu leiks. Einnig skoraði Ingvi Þór Guðmundsson virkilega mikilvæga þrista fyrir heimamenn á ögurstundu á meðan lykilmenn Stjörnunnar, að Hlyni Bæringssyni frátöldum, gátu ekki keypt sér körfu stærstan hluta leiks.
Tölfræðin
16%. Stjörnumenn hittu úr 5 af 32 þriggja stiga tilraunum sínum, sem gerir 16% nýtingu. Grindavík hitti aftur á móti úr 13 af 30 tilraunum fyrir utan þriggja stiga línuna, sem gerir 43% nýtingu.
Framhaldið
Grindvíkingar geta sent Garðbæinga í sumarfrí næstkomandi laugardag þegar liðin mætast þriðja sinni í Ásgarði, klukkan 16:00.
Tölfræði leiksins
Myndasafn (Skúli B. Sigurðsson)
Viðtal eftir leik:
Jóhann: Förum í Garðabæ til þess að vinna og þar af leiðandi sópa þeim út
Umfjöllun / Elías Karl Guðmundsson
Myndir og viðtöl / Skúli B. Sigurðsson
Forsíðumyndin er úr myndasafni Víkurfrétta – ljós. Hilmar Bragi