Lokahóf körfuknattleiksdeildar Vestra var haldið um helgina og voru Grindvíkingar áberandi í hópi þeirra leikmanna sem voru verðlaunaðir. Fyrir tímabilið gengu þeir Hinrik Guðbjartsson og Nökkvi Harðarson til liðs við Vestra og á lokahófinu á laugardaginn var Hinrik valinn bæði besti leikmaður liðsins og sá efnilegasti.
Á heimasíðu Vestra segir:
„Hinrik Guðbjartsson, leikstjórnandi var valinn besti leikmaðurinn og hlaut hann einnig nafnbótina efnilegasti leikmaðurinn. Hinrik, sem er aðeins 21 árs gamall, sýndi í vetur að hann er meðal bestu leikstjórnenda 1. deildar og meðal efnilegustu leikstjórnenda landsins. Hinrik var með 16 stig, 3,5 fráköst og 2,8 stoðsendingar að meðaltali í leik á tímabilinu.“
Þá fékk Nökkvi Harðarson viðurkenningu fyrir mestar framfarir. Nökkvi varð fyrir því óláni að hljóta slæm höfuðmeiðsl á miðju tímabili en lét það þó ekki stoppa sig og kom gríðarlega sterkur inn í seinni hluta mótsins. Það sést vel á því að í fjórum af síðustu sex leikjum deildarinnar var hann með yfir 10 stig auk þess að vera tvisvar með tvennu (yfir 10 stig og 10 fráköst).
Við óskum þeim félögum til hamingju með þessar viðurkenningar og þennan góða árangur.