Eftir langa eyðimerkurgöngu lönduðu stelpurnar fyrsta sigri ársins í gær þegar þær lögðu granna okkar úr Njarðvík, 73-72. Angela Rodriguez var loksins komin í búning í gær eftir endalausar leikheimildarflækjur og munaði um minna fyrir Grindavík. Hún skoraði fyrstu körfu leiksins og kom okkar konum á bragðið, sem leiddu í hálfleik, 46-30.
Gestirnir frá Njarðvík ákváðu þó að vakna í 3. leikhluta og unnu hann 7-22 og lokamínúturnar urðu því æsispennandi. Grindavík hélt engu að síður haus og lét forystuna aldrei af hendi. Áðurnefnd Angela Rodriguez var stigahæst Grindavíkurkvenna með 21 og bætti við 8 stoðsendingum og 5 fráköstum. Næst í stigaskorun kom María Ben Erlingsdóttir sem skoraði 19 stig og tók 12 fráköst.
Líkt og svo oft áður í vetur var Carmen Tyson-Thomas allt í öllu hjá Njarðvík en hún skoraði 46 stig og tók 20 fráköst en hún lék allar 40 mínútur leiksins. Næst stigahæst var Björk Gunnarsdóttir með 9 stig en hún lék einnig allan leikinn.
Grindavík situr enn á botni deildarinnar eftir þennan sigur með 4 sigra en Haukar, sem töpuðu í gær fyrir Snæfelli, eru í 7. sætinu með 6 sigra. Grindavík á því enn tölfræðilega möguleika á að halda sér uppi þegar þrír leikir eru eftir. Leikjaplan Grindavíkur er eftirfarandi:
15-03-2017: 19:15 Valur Grindavík
18-03-2017: 16:30 Grindavík Snæfell
21-03-2017: 19:15 Stjarnan Grindavík