Dagur Kár sökkti Stólunum með flautuþristi

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Grindvíkingar sóttu rándýran sigur norður á Sauðárkrók í gær þegar þeir lögðu lið Tindastóls í miklum spennuleik. Heimamenn jöfnuðu leikinn úr vítaskoti þegar 4 sekúndur voru til leiksloka, Grindavík tók ekki leikhlé, Dagur geystist upp völlinn og setti niður magnað þriggja stiga skot úr erfiðu færi, spjaldið ofan í! Hægt er að horfa á leikinn í heild sinni og sjá alla dýrðina í spilaranum  hér að neðan.

Karfan.is fjallaði að sjálfsögðu um leikinn:

Grindavík sigraði Tindastól, 101-98, í æsispenndi leik í 21. umferð Dominos deildar karla. Eftir leikinn er Grindavík því sem fyrr í 4. sæti deildarinnar á meðan að Tindastóll er 6 stigum fyrir ofan þá í 2.-3. sætinu. Eftir leiki kvöldsins er það ljóst að KR er deildarmeistari þetta árið, en þeir sigruðu Snæfell í Stykkishólmi á meðan að liðin í 2.-3. sæti, Tindastóll og Stjarnan, töpuðu bæði sínum leikjum.

Það voru heimamenn í Tindastól sem byrjuðu leik betur í Síkinu. Eftir fyrsta leikhluta leiddu þeir leikinn 32-24. Í öðrum leikhlutanum tóku gestirnir svo við sér, en þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var staðan 50-48 Tindastól í vil.

Í upphafi seinni hálfleiksins voru heimamenn svo aftur skrefinu á undan. Við lok þriðja leikhlutans leiddu þeir leikinn 75-70. Í fjórða og síðasta leikhlutanum var leikurinn svo áfram jafn og spennandi, en þá var það Grindavík sem var betri aðilinn. Fór svo að lokum að Grindavík sigraði leikinn á glæsilegri flautukörfu frá Degi Kár Jónssyni, 98-101.

Tölfræði leiksins