Keflvíkingar stálu stigum í Mustad-höllinni

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Grindavík náði ekki að loka nágrannaslagshelginni á sömu nótum og hún hófst, en Keflavík tók stigin í Mustad-höllinni í gær. Leikurinn var jafn framan af en Keflavík með Amin Stevens í broddi fylkingar var sterkari á lokasprettinum og kláraði leikinn, 85-92. Grindavík er því í 5. sæti Domino’s deildar karla, aðeins 2 stigum á undan Keflavík.

Karfan.is fjallaði um leikinn:

Keflavík sótti rándýran sigur til Grindavíkur í kvöld er liðin mættust í 18 umferð Dominos deildar karla. Eftir hnífjafnan fyrri hálfleik sigu gestirnir framúr með Amin Stevens fremstan í flokki og unnu nágranna sína 92-85.

Gangur leiksins

Jafnt var nánast á öllum tölum í fyrri hálfleik og skiptust liðin hreinlega á forystunni og var hún mest sex stig. Sóknarleikur liðanna var í aðalhlutverki og staðan 48-46 fyrir Grindavík í hálfleik. Allt annað var uppi á teningnum í seinni hálfleik þar sem varnirnar hertust nokkuð og annað liðið seig framúr.

Keflavík náði 10 stiga forystu í þriðja leikhluta með góðum varnarleik og Amin Stevens hélt uppteknum hætti og virtist hreinlega geta skorað að vild. Grindavík náði með baráttu og áræðni að koma muninum minnst niður í þrjú stig á lokamínútunum en Keflavík átti alltaf nýtt spil á hendi. Gestirnir höfðu því á endanum sjö stiga sigur og eru eingöngu tveimur stigum frá heimavallarétt í úrslitakeppninni.

Tölfræðin lýgur ekki
Grindavík tók 42 þriggja stiga skot í leiknum og hittu eingöngu úr 11, mikið af skotunum voru þvinguð og alltof erfið. Þeir taka einnig mun fleiri sóknarfráköst og fá þar af leiðandi fleiri skot sem heimamenn nýttu ákaflega illa. Keflavík tapar einnig 16 boltnum gegn 10 hjá Grindavík.

Hetja leiksins
Hinn ótrúlegi Amin Stevens fór að kostum í kvöld. Hann endaði með 36 stig, 16 fráköst og var með 80% skotnýtingu í 19 tilraunum. Hann og Hörður Axel náðu frábærlega saman í kvöld og tóku mikið til sín sem opnaði fyrir aðra í sókninni. Það er einnig þarft að nefna hlut Daða Lár Jónssonar í sigri kvöldsins, hann spilaði nánast fullkomna vörn í dag. Framlag hans var ekki metið í tölfræði en hann gerði alla hluti erfiðari fyrir Grindavík í dag og þá sérstaklega bróðir síns Dags Kár.

Kjarninn
Það féllu stór orð fyrir áramót þegar Hörður Axel sagði að Keflavík yrði með heimaleikjarétt í úrslitakeppninni. Þá var liðið nær fallsæti en eru nú eingöngu tveimur stigum frá settu markmiði. Handbragð Friðriks Inga er farið að sjást greinilega en boltinn gekk frábærlega á milli manna í dag og liðsbragur yfir liðinu þrátt fyrir yfirburði Amin í leiknum. Liðið er þar með komið með forystu í innbyrgðisviðureignum félaganna sem gætu vel endað á svipuðum stað í deildinni. Keflavík hefur unnið tvo leiki í röð og gæti þessi úti sigur í Grindavík reynst dýrmætur fyrir stemmninguna í liðinu.

Grindavík aftur á móti sýndi furðulega frammistöðu í dag. Agaleysið skein af aðgerðum þeirra sem enduðu annað hvort með lélegum skotum en einföldum einangrunum á lyklinum. Menn ætluðu að göslast í gegnum vörn Keflavíkur í stað þess að láta boltann vinna fyrir sig. Flæðið í sóknarleiknum var sérlega lítið, lykilmenn hægðu á leiknum og tóku glórulaus skot. Það gengur hreinlega ekki í 40 mínútur gegn jafn góðu varnarliði og Keflavík er. Þeim var því eðlilega refsað fyrir og Keflavík hristi sigurinn. Mætingin í Grindavík var fín í dag og stemmningin góð, ljóst er að stutt er í úrslitakeppni en leikmenn verða að fara að fá sömu tilfinningu og taka meiri framförum inná vellinum sem lið.

Tölfræði leiksins