Stelpurnar grátlega nálægt sigri í spennuleik

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Grindavíkurkonur voru hársbreidd frá því að landa sínum fyrsta sigri á nýju ári þegar þær tóku á móti Stjörnunni í fyrrakvöld. Liðið hefur gengið í gegnum ýmsar hrakningar í vetur og ekki náð að sýna sitt rétta andlit en allt annað lið virtist vera mætt til leiks á miðvikudaginn. Stjarnan fór að lokum með sigur af hólmi 71-74.

Karfan.is fjallaði um leikinn:

Kvennalið Grindavíkur tóku á móti Stjörnunni í Dominos-deild kvenna í kvöld. Ekki þurfti að koma á óvart að enn og aftur voru gular kanalausar og hin þolinmóða Angela Rodriguez sem hefur verið fengin til liðsins í borgaralegum klæðnaði á bekknum. Spennandi verður að sjá hvort Angela nái einhverjum leik með Grindavíkurliðinu en eftir þennan leik eru 7 leikir eftir.

Stjörnustúlkur byrjuðu betur og áttu greiðari leið að körfu heimasætanna en sóknarleikur Grindvíkinga gekk frekar brösuglega í byrjun. Íris setti svo tvær körfur, aðra þeirra fyrir utan 3-stiga línuna og virkaði þetta eins og vítamínssprauta á gular. Stjörnustúlkur tóku þá við sér og komu muninum þægilega upp aftur en staðan eftir fyrsta fjórðung var 11-15. Danielle Victoria R. bar höfuð og herðar yfir aðra leikmenn og leiddi sóknarleik gestanna með miklum myndarbrag.

Danielle fór svo á bekkinn í upphafi 2. leikhluta en allt kom fyrir ekki hjá Grindavík, Hrund tapaði fljótlega boltanum og braut óíþróttamannslega af sér og allur vindur í Stjörnuseglin! Áður en varði var munurinn kominn upp í 11 stig, 11-22. María Ben kom Grindavík svo loksins á stigakortið í 2. leikhluta en Stjarnan svaraði jafn harðan. Ingunn Embla hafði verið á bekknum í upphafi 2. leikhluta en kom svo inn á og kveikti vel upp í sínu liði og sérstaklega varnarlega. Eftir nokkrar gular körfur, m.a. þrist frá henni bráðefnilegu Ólöfu Rún og svo loks illa tapaðan bolta hjá Stjörnunni þá tók Pétur Már þjálfari Stjörnunnar leikhlé, 21-28. Grindavíkurstúlkur voru í þessum skrifuðu orðum að spila fantagóða vörn og Íris bætti fljótlega við öðrum þristi, 24-28. Magnað hvað vindarnir geta snúist fljótt í Grindavíkinni! Það hefði verið gaman að taka tímann á milli karfa hjá Stjörnunni en þær sáu 28 stig á töflunni í óralangan tíma.

Hin sjóðandi heita Danielle klikkaði m.a. á 2 vítum og Grindavík sigldi fram úr. Nýtingin fyrir utan 3-stiga línuna var lyginni líkust og hvert skotið af fætur öðru rataði rétta boðleið og áður en varði voru heimastúlkur komnar 7 stig yfir, 37-30. Bláar settu þá 5 stig röð en urðu svo fyrir áfalli þegar Danielle braut af sér og fékk sína 4. villu. Petrúnella sem skömmu áður hafði snögghitnað, setti enn einn þristinn fyrir Grindavík sem var lokakarfan í fyrri hálfleik og staðan að honum loknum 40-35. Petrúnella sem var án stiga lengi framan af 2. leikhluta var komin með 11 stig hjá Grindavík, María Ben og Íris með 8 og Ingunn Embla 7 stig. Hjá Stjörnunni var Danielle komin með 17 stig en 4 villur eins og áður kom fram, Ragna Margrét með 7 og Shanna D með 5 stig.

Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri hafði endað, Stjörnustúlkum fyrirmunað að finna botn netsins en á sama tíma duttu skotin niður hinum megin. Danielle kom svo Stjörnunni loksins á blað eftir rúmar 4 mínútur með 2 vítaskotum og við það brast stíflan og Stjörnustúlkur komu nokkrum boltum í viðbót í gegnum körfuhringinn en heimastúlkur voru áfram sjóðandi heitar fyrir utan 3-stiga línuna. 61-47 fyrir loka bardagann gefur nokkuð glögga mynd af 3. leikhlutanum en Stjarnan skoraði einungis 12 stig í honum. Spurning hvaða varnarafbrigði Paxel bryddaði upp á frá og með 28 stigum Stjörnustúlkna því alger viðsnúningur varð á þeim tímapunkti. Ingunn Embla og Ólöf Rún voru sjóðandi fyrir utan 3-stiga línuna og voru komnar með 13 og 9 stig. María Ben í 12 og Petrúnella sem hafði hægar um sig en í fyrri hálfleik komin með 13 stig. Danielle áfram yfirburðar hjá Stjörnunni með 25 stig og Ragna Margrét komin með 10.

Nokkuð ljóst að Stjarnan þurfti að byrja sterkt ef ekki átti illa að fara og það gerðu þær með fyrstu 4 stigum síðasta fjórðungs. Þær skiptu yfir í svæðsivörn sem heimasætur áttu erfitt með að brjóta á bak aftur og koma góðum skotum á körfuna. Þegar Stjarnan kom muninum svo niður fyrir hinn oft á tíðum erfiða 10 stiga þröskuld, þá sagði Paxel þjálfari hingað og ekki lengra og tók leikhlé enda nóg eftir eða 5:29 og einungis 9 stiga munur. Lítið breyttist og Stjarnan hélt áfram að saxa á forskotið, heimastúlkum fyrirmunað að skora og voru einungis búnar að skora 4 stig þegar 7 mínútur voru búnar af fjórðungnum. Stjarnan hinsvegar búin að setja 14 stig og allt útlit fyrir æsispennandi lokakafla! María ben setti svo loks annað víta sinna niður og svo setti Lovísa Fals sterkan þrist fyrir Grindavík en Stjarnan svaraði jafn harðan með körfum frá Danielle sem jafnaði svo 69-69 og þá tók Paxel aftur leikhlé. Þvílíkur leikur!

Áfram gekk Grindavík bara einfaldlega ekki að skora og Stjarnan komst 3 stigum yfir áður en Ingunn Embla komst loks á vítalínuna og setti bæði skot niður og þá tók Pétur leikhlé. Bríet Hinriksdóttir setti flotta körfu í lokin og því þurfti Grindavík þrist en allt kom fyrir ekki og Stjörnusigur staðreynd. Grindvíkingar þurfa því að bíða enn um sinn eftir fyrsta sigrinum á nýju ári en sá síðasti kom 3. des 2016. Vissulega hafa verið miklar hrakningar síðan þá og aðallega sú staðreynd að vera án Kana en eins og allir vita skipta Kanarnir gríðarlega miklu máli í kvennaboltanum.

Til gamans má geta að sé meðal-framlag skoðað hjá Kana vs. hæsta Íslendingi í báðum deildum, þá skila Karla-Kanar að meðaltali rúmum 25 framlagsstigum á móti tæpum 16 hjá hæsta Íslendingi en hjá kvenfólkinu er munurinn tæp 29 stig Kana á móti tæpum 13 stigum íslensku stelpnanna.

Hjá sigurliðinu var Danielle langbest og skoraði 36 stig eða rétt tæpan helming stiga Stjörnunnar. Ragna Margrét sú eina sem komst yfir 10 stigin og endaði með 13 en hún var sú eina sem skilaði tvennu því hún reif líka niður 10 fráköst. Danielle var 1 frákasti frá tvennunni. Hjá Grindavík voru Ingunn Embla og María Ben stigahæstar með 15 stig en Petrúnella sú eina sem skilaði tvennu með 13 stigum og 10 fráköstum.

Tölfræði leiksins

Viðtal við Pál Axel, þjálfara: