Páll Axel Vilbergsson tekur við kvennaliðinu

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Þjálfaraskipti hafa orðið í annað sinn á þessu tímabili hjá meistaraflokki kvenna í körfuboltanum en um helgina var tilkynnt að Páll Axel Vilbergsson hefði tekið við þjálfun liðsins. Fráfarandi þjálfari, Bjarni Magnússon, hefur verið frá vegna veikinda síðan um jól og alls óvíst hvenær hann getur komið til starfa á ný. Palla til aðstoðar verður einn af reyndari leikmönnum liðsins, Ingibjörg Jakobsdóttir, sem er komin í barneignarleyfi sem leikmaður.

Yfirlýsing frá Körfuknattleiksdeild Grindavíkur:

Eins og ekki sé nóg búið að ganga á hjá kvennaliði okkar Grindvíkinga, þá bættist við þessa raun okkar að Bjarni Magnússon sem tók við liðinu í haust, þarf vegna erfiðrar sýkingar að segja starfi sínu lausu. Þótt körfubolti skipti gríðarlega miklu máli þá er það nú þannig að heilsan kemur á undan í forgangsröðinni. Bjarni veiktist rétt fyrir jólin og ákvað stjórnin í góðu samráði við Bjarna að bíða út janúar í þeirri von að hann myndi braggast en það varð ekki raunin. Samvinnan við Bjarna var algjörlega til fyrirmyndar og þótt stjórnin reikni ekki með að ráða Bjarna aftur sem leikmann en hann var vissulega leikmaður okkar einu sinni, þá er Bjarni klárlega velkominn aftur til starfa hjá okkar góða klúbbi. Við óskum Bjarna bata og betri heilsu og þökkum honum enn og aftur.

Við keflinu tekur einn af dáðari leikmönnum okkar Grindvíkinga, Páll Axel eða „Paxel” eins og við kjósum að kalla hann. Kappinn þurfti ekki langan umhugsunarfrest og hefur tekið við starfinu, hefur stýrt tveimur æfingum og stjórnar svo liðinu í sínum fyrsta leik gegn Snæfelli annað kvöld kl 19:15. Við bjóðum Paxel velkominn til starfa. Honum til aðstoðar verður Ingibjörg Jakobs sem í dag telst vera fyrrverandi leikmaður þar sem hún tók uppá því að verða ólétt. Við óskum henni að sjálfsögðu til hamingju með það og vonum að sjálfsögðu að við eigum eftir að semja við hennar erfingja. Genin ættu að vera góð.

Eins og flestir vita voru tveir mætir menn búnir að stökkva í skarðið fyrir Bjarna á meðan hann reyndi endurkomu en það voru ekki ómerkari menn en Ellert Sig. Magnússon og þjálfari karlaliðs okkar, Jóhann Þór Ólafsson. Ekki ónýtt fyrir klúbbinn að geta leitað til svona klúbbmanna! Er þeim kærlega þakkað fyrir sitt framlag.

Að lokum viljum við segja eftirfarandi. Í kvennaliði okkar Grindvíkinga eru gríðarlega metnaðarfullir íþróttamenn sem fóru inní þetta tímabil með miklar væntingar í huga. Allt sem á hefur gengið á sér varla hliðstæðu og rataði klúbburinn í fréttir sem voru í senn óvægar og jafnvel bjánalegar. En fréttaflutningi stjórnum við víst ekki. Það kæmi okkur ekki á óvart að það sem þær hafa þurft að glíma við á þessu tímaili nái margir íþróttamenn ekki að upplifa á heilum ferli. Okkar leikmenn vita upp á hár sína þátttöku í því sem miður hefur farið og það gerir stjórnin líka. Við vinnum saman og við töpum saman. Stjórn KKD UMFG stendur gjóthörð á bak við liðið í þeim bardaga sem framundan er og öllum má vera það morgunljóst að við ætlum að vera í Domino´s deildinni á næsta tímabili. Á meðan það er tölfræðilega hægt verður barist til síðsta blóðdropa.

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Grindavíkur