Strákarnir áfram í bikarnum eftir sigur á Þórsurum

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Eftir að hafa hikstað aðeins í tveimur síðustu deildarleikjum náðu Grindvíkingar að rétta úr kútnum á ný með góðum sigri á Þór á Akureyri í Maltbikarnum. Það var ekki mikið skorað í leiknum sem var jafn framan af en uppúr hálfleik náðu okkar menn betri tökum á leiknum og lönduðu að lokum sigri, 61-74.

Á heimasíðu Þórasara, thorsport.is, var fjallað ítarlega um leikinn:

Draumur Þórsara um að komast í Höllina og verða þátttakendur í ,,Hin fjögur fræknu” varð að engu í kvöld þegar liðið beið lægri hlut gegn Grindvíkingum.

Grindvíkingar sem töpuðu illa gegn Haukum í síðasta leik mættu grimmir til leiks og náðu strax góðum tökum á leiknum og komust strax í 0-8 áður en Þórsurum tókst að svara fyrir sig. Um miðjan leikhlutann var forskot gestanna 9 stig en þá kom ágætur kafli hjá Þór og þeim tókst að koma muninum niður í tvö stig þegar fyrsta leikhluta lauk 19-21.

Þórsarar virtust ætla hrökkva í gang í upphafi annars leikhluta og komust yfir í fyrsta sinn í leiknum eftir þriggja mínútna leik 25-24. Gestirnir komust strax yfir á ný en um miðjan leikhlutann komst Þór aftur yfir 33-32. Rétt eins og áður komust gestirnir strax yfir og leiddu í hálfleik með fimm stigum 36-41.

Þórsarar byrjuðu síðari hálfleikinn vel þ.e. fyrstu mínútuna og jöfnuðu 41-41. En líkt og áður í leiknum þegar Þór tókst að koma sér upp að hlið gestanna þá einfaldlega spýttu þeir í lófana og sigldu fram úr.

Grindvíkingar voru mun ákveðnari í öllum sínum aðgerðum, þeir hittu betur og gerðu mun færri mistök en heimamenn og höfðu níu stiga forskot 44-53 þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst.

Sagan endurtekur sig í upphafi fjórða leikhluta þar sem Þórsarar byrja vel og skora fyrstu fjögur stigin og minnka muninn í fimm stig 48-53. Það sem eftir lifði leiks var leikurinn alfarið eign gestanna sem einkenndist af mikilli baráttu, fín hittni og þeir gera fá mistök. Á sama tíma gekk allt á afturfótunum hjá Þór. Gestirnir klára það sem eftir lifði leikhlutans með því að skora 21 stig gegn 13 Þórs.

Fór svo að gestirnir unnu sannfærandi 13 stiga sigur 61-74 þeir eru á leið í Final four en Þórsarar sitja eftir með sárt ennið.

Það verður að segjast eins og er að Þórsarar náðu sér aldrei á strik í kvöld og liðið svo óralangt frá því að skila af sér eitthvað í líkingu við það sem þeir gerðu í síðasta leik gegn Tindastóli.

Einnig munar um að í kvöld voru aðeins fimm leikmenn Þórs sem náðu að skora í kvöld en á sama tíma voru átta leikmenn gestanna sem komust á blað.

Stigahæstur Þórs í kvöld var George Beamon með 23 stig og kappinn tók einnig 14 fráköst, Darrel Lewis var með 15 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar. Tryggvi Snær var með 8 stig og 18 fráköst, Ingvi Rafn Ingvarsson 12 stig, 10 fráköst og 3 stoðsendingar og að lokum Þröstur Leó Jóhannsson með 3 stig.

Hjá Grindavík var Lewis Clinch Jr. stigahæstur með 20 stig, Ómar Örn Sævarsson og Ólafur Ólafsson með 15 stig hvor, Dagur Kár Jónsson 9 stig og 9 fráköst, Ingvi Þór Guðmundsson og Þorsteinn Finnbogason 5 stig hvor, Þorleifur Ólafsson 3 stig og Jens Valgeir Óskarsson 2.

Tölfræði leiksins

Myndasafn