Ashley Grimes hætt hjá Grindavík

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Ashley Grimes mun ekki leika með Grindvíkingum á nýju ári en þetta kom fram í tilkynningu frá Körfuknattleiksdeild UMFG nú rétt í þessu. Ashley var efst í flestum tölfræðiþáttum hjá liðinu en þrátt fyrir það virtist hún ekki njóta sín vel á Íslandi og vilja menn meina að hún hafi í raun átt mun meira inni. Þá hefur þjálfari liðsins, Bjarni Magnússon, glímt við veikindi í jólafríinu en er þó á batavegi og mun stýra liðinu á laugardaginn.

Yfirlýsingin frá Körfuknattleiksdeildinni í heild sinni:

„Bandaríski leikmaður kvennaliðs Grindavíkur, Ashley Grimes tilkynnti þann 28. desember að hún myndi ekki snúa til baka eftir jólafrí og þ.a.l. er leit hafin af nýjum Kana. Auðvitað hefði verið best að fá að vita af þessari ákvörðun Ashley um leið og hún hélt heim í jólafrí en við teljum allar líkur á að hún hafi þá þegar verið búin að taka ákvörðunina. Betra er samt seint en aldrei.

Ashley skilaði ágætis tölum en m.v. hæfileikana sem í henni búa er deginum ljósara að hún „feel-aði” sig ekki vel á Íslandi því hún sýndi bara brotabrot og gaf lítið af sér. Þess vegna mun þetta vonandi reynast blessun í dulargervi en allar klær eru úti til að finna nýjan Kana og koma honum á skerið sem fyrst.

Kvennaliðið lenti í meiri hrakningum í jólafríinu því Bjarni Magnússon þjálfari, veikist nokkuð illa stuttu fyrir jól og þurfti að dvelja á sjúkrahúsi nokkra daga en er kominn heim og er á góðum batavegi. Ekki er um alvarleg veikindi að ræða en hann þarf einhverja daga til að jafna sig og mun gamla kempan Ellert Sig Magnússon taka við keflinu á meðan og stýrir liðinu í fyrsta leik eftir jólafrí á laugardag en þá mætum við Stjörnunni á heimavelli.“

Mynd: Karfan.is