Föstudaginn 25. nóvember mætti hluti af krökkunum sem æfa skák hjá skáknefnd UMFG upp í Víðihlíð til að taka áskorun sex eldri borgara. Krakkarnir skemmtu sér konunglega og uppskáru nokkra ljúffenga sigra gegn þessum öldnu köppum sem hafa margra áratuga reynslu í að hreyfa spítukarlanna fram til sigurs. Það er nú einn af stórum kostunum við skákíþróttina að aldurinn eða kyn skiptir ekki máli.
Börnin fengu samtals 8,5 vinninga á móti 27,5 vinningum hjá þeim eldri. Börnin tefldu vel og í allmörgum skákum leit út fyrir að þau væru að fara að sigra en misstu svo niður vinninginn sinn. Skákin byggist á þekkingu, reynslu og innsæi og oft fer það þannig hjá börnum að þeim skortir reynsluna og innsæið og því má segja að þeir eldri hafi oft unnið þau á reynslunni. Ég efast ekki um að börnin eigi mikið inni og munu í næsta stríði gegn þessum köppum uppskera fleirri vinninga. Það þarf ekki mikið að hafa fyrir því að koma á litlu skákmóti sem er svo gefandi fyrir þá sem taka þátt og þess vegna munum við vonandi endurtaka þessa keppni oft.
Með skákkveðju,
Siguringi Sigurjónsson.
Skákþjálfari Skáknefndar UMFG.