Grindvíkingar hafa orðið fyrir blóðtöku í körfunni en Víkurfréttir greindu frá því í gær að Jóhann Árni Ólafsson hefði skrifað undir hjá uppeldisfélagi sínu, Njarðvík. Jóhann er þó ekki alfarinn þar sem hann mun búa og starfa áfram í Grindavík þar sem hann er yfirþjálfari yngri flokka hjá félaginu og frístundaleiðbeinandi hjá Þrumunni.
„Körfuboltamaðurinn Jóhann Árni Ólafsson mun halda aftur á heimaslóðir og spila með Njarðvíkingum á næsta tímabili í Domino’s deildinni í körfubolta, en hann hefur leikið með Grindvíkingum frá árinu 2011. Jóhann segir það hafa verið erfiða ákvörðun að yfirgefa Grindavík en hann hefur verið ákaflega sigursæll með liðinu og unnið allt sem er í boði í íslenskum körfubolta.
„Þetta var erfið ákvörðun en ég held að þetta sé rétta ákvörðunin á þessum tíma,” segir Jóhann í samtali við Víkurfréttir en hann er uppalinn í Ljónagryfjunni í Njarðvík. „Þetta var einhver löngun að fara á æskuslóðir í Njarðvík. Ég ætlaði alltaf að enda ferilinn í Njarðvík. Svo var þetta allt í blóma núna og þá sá ég enga ástæðu til þess að bíða í einhver ár til þess að enda ferilinn þar. Þetta er eitthvað sem ég þurfti að koma úr „systeminu” að spila aftur fyrir Njarðvík,” bætir framherjinn öflugi við.
Jóhann segist eiga nóg eftir af ferlinum en hann er að detta í þrítugt. Fyrir hjá Njarðvík hittir hann öfluga leikmenn sem hann er spenntur fyrir að spila með. „Þegar Haukur kvittaði undir þá fannst manni þetta ekki vera spurning. Logi og Haukur og bara séns á titli.” Jóhann segist koma með þau markmið að vinna titla hjá Njarðvík. „Þegar maður lítur á hópinn þá hljótum við að gera gott tilkall.”
Jóhann á heimili í Grindavík og mun áfram búa og starfa þar. „Það hefur verið frábært að vera í Grindavík. Ég myndi ekki vilja skipta þessum tíma út fyrir neitt. Þetta er orðið heimili mitt,” en Jóhann mun ennþá þjálfa yngri flokka hjá Grindavík auk þess að vinna með unglingum í grunnskólanum.
Þjálfari Njarðvíkinga, Daníel Guðni Guðmundsson, er einn af betri vinum Jóhanns en þeir eru jafnaldrar úr Njarðvík. Jóhann segir það áhugavert að spila fyrir Daníel. „Vinátta okkar er slík að við getum sagt hvað sem er og virt skoðanir hvors annars. Við munum reyna að finna leiðir til þess að vinna körfuboltaleiki og þá er vináttan ekkert að þvælast fyrir okkur.”“
Mynd: karfan.is